Kosið sem fyrst vegna fjárlaganna

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. mbl.is/Styrmir Kári

Það er brýnt að boðað verði til kosninga sem allra fyrst þannig að hægt verði að afgreiða fjárlögin fyrir jól eftir kosningar. Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðiprófessor sem telur að Bjarni sé búinn að ræða dagsetninguna 4. nóvember við forystumenn fleiri flokka þar sem hann kvaðst vilja taka ákvörðun um kjördag í samráði við aðra flokka.

„Fjárlögin eru í umræðu allt haustið, en þessi starfsstjórn mun ekki hafa neitt lýðræðislegt umboð. Það verður tekist á um þetta í kosningabarátunni,“ segir Stefanía. Hún bendir á að fjárlagafrumvarpið sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram núna í haust hafi verið fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar, en ríkisstjórnin samþykkti fjármálastefnu og áætlun í vor.

„Það verður fróðlegt að sjá skoðanakannanirnar núna,“ segir Stefanía spurð út í möguleika nýrra flokka á góðu gengi í kosningunum. „Maður getur ímyndað sér að kosningarnar komi á ákaflega heppilegum tíma,“ segir hún spurð um stöðu Flokks fólksins „en staðan breytist náttúrulega þegar kjósendur standa frammi fyrir kosningum. Þeir taka öðruvísi afstöðu fyrir kosningar og á miðju kjörtímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert