Vilja afgreiða þrjú mál á þingfundi

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkur Pírata hefur sent tölvupóst á alla þingmenn þar sem óskað er eftir stuðningi við að boðað verði til þingfundar til þess að klára þrjú mál. Í póstinum, sem einnig var sendur um leið á fjölmiðla, segir: „Kæru þingmenn. Styðjið þið að óska eftir þingfundi til að klára strax þrjú mikilvæg mál?“ Undir bréfið ritar Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.

Málin þrjú eru í fyrsta lagi frumvarp Loga Más Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um að tveimur stúlkum og fjölskyldum þeirra, sem sóttu um hæli hér á landi en fengu höfnun bæði frá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, verði veittur ríkisborgararéttur.

Einnig frumvarp Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, um að þeir sem sakfelldir hafa verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki starfað sem lögmenn. Þá er um að ræða frumvarp um breytingu á stjórnarskránni svo hægt verði að breyta henni á næsta kjörtímabili með aðkomu kjósenda án þess að rjúfa þing og boða til þingkosninga.

Síðastnefnda málið er hliðstætt við frumvarp sem lagt var fram og samþykkt fyrir þingkosningarnar 2013 en Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sem þá var í framboði fyrir flokkinn, lagðist alfarið gegn því þá að slíkt frumvarp yrði samþykkt.

Frumvarpið 2013 var lagt fram þar sem ekki náðist samstaða í tíma um að afgreiða frumvarp að nýrri stjórnarskrá í tíma fyrir kosningarnar um vorið. Frumvarpið kvað á um tímabundna heimild til þess að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæði en hún var hins vegar ekki nýtt áður en hún féll úr gildi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert