Eina líkamsræktarstöð bæjarins lokar

Ísafjörður.
Ísafjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu um að skoðuð verði aðkoma bæjarins að líkamsræktaraðstöðu á Torfsnesi þar sem íþróttahús bæjarins er staðsett.  

Ástæðan er sú að eina líkamsræktarstöð bæjarins, Stúdíó Dan, lokar í febrúar.

Í bókun bæjarráðs kemur fram að áhugasamir aðilar um opnun líkamsræktarstöðvar á Torfsnesi hafi leitað til bæjarstjóra og formanns bæjarráðs í sumar til að ræða í samstarfi við bæinn um verkefnið, sem var vel tekið.

„Verkefnið er þegar í vinnslu og er okkur því ljúft að samþykkja tillöguna sem hér liggur fyrir. Verið er að kanna möguleika á framtíðarstaðsetningu við íþróttahúsið á Torfnesi. Æskilegt væri þó að leita samninga við eiganda þess húsnæðis sem Stúdíó Dan nýtir í dag um að hýsa líkamsræktarstöð þar til nýtt húsnæði verður tilbúið. Það er mjög mikilvægt fyrir bæjarfélagið að hér sé starfandi líkamsræktarstöð enda brýnt lýðheilsumál og eykur lífsgæði bæjarbúa,“ segir í bókuninni.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hafa þarf hraðar hendur 

Í tillögu Daníels Jakobssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um líkamsræktarstöðina kemur fram að hafa þurfi hraðar hendur því mikilvægt sé að eitthvað taki við þegar Stúdíó Dan lokar.

„Stúdíó Dan hefur þjónað Ísfirðingum um árabil með frábærum árangri og þrautlausu [sic] starfi eigenda. Nú liggur fyrir að húsnæðið hefur verið selt og núverandi eigendur hyggjast hætta rekstri á sama tíma. Aðgangur að góðri líkamsræktarstöð skiptir marga íbúa miklu máli. Hins vegar virðist ekki vera nægjanlegur fjöldi íbúa til að slík stöð standi undir sér án aðkomu bæjarins, a.m.k. ekki í nýlegu húsnæði,“ segir í greinargerð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert