Myndirnar segja til um hugarástandið

Nýjasta áhugamál Katrínar. Framundan er mótorhjólapróf.
Nýjasta áhugamál Katrínar. Framundan er mótorhjólapróf.

Katrín Þóra Víðisdóttir Berndsen uppgötvaði listræna hæfileika á fullorðinsaldri. Katrín tók stutt nám á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri, annað hefur hún lært á Youtube. Katrín hefur barist við þunglyndi sem engin lyf hafa unnið á. Hún býður nú greiningar á því hvort hún sé með athyglisbrest sem leitt hafi til þunglyndis. Auk málverka málar Katrín á postulín og skreytir gólf.

„Mér hefur alltaf fundist gaman að skapa en ekki haft tækifæri til þess. Ég fór á listabraut í Verkmennaskólanum á Akureyri í eina eða tvær annir og fannst það voða gaman,“ segir Katrín Þóra Víðisdóttir Berndsen sem uppgötvaði listræna hæfileika á fullorðins árum.

Katrín er fædd og uppalin til sjö ára aldurs á Hvammstanga en flutti þaðan á Laugarbakka í Húnaþingi vestra.

Katrín og Natan Dagur Berndsen búa á Akranesi.
Katrín og Natan Dagur Berndsen búa á Akranesi.


„Ég byrjaði að mála í október 2015. Einhverra hluta vegna fékk ég akrýlmálningu frá mömmu og striga svo ég fór bara að mála. Mér fannst það ógurlega gaman en kunni ekkert fyrir mér.“ Katrín lét það ekki stoppa sig heldur leitaði á youtube að kennslumyndböndum.

„Ég vissi ekkert hvað ég var að gera og leitaði með hjálp google að akryl painting. Fann þar myndbönd og lærði af þeim. Katrín byrjaði á svipuðum tíma að mála á leirtau.

„Sumarið 2015 vann ég hjá mömmu sem rekur handverkshús á Laugarbakka. Í öllum dauðum stundum lék ég mér að því að mála á bolla og diska fyrir gistiheimilið. „Ég fann á youtube myndband um það hvernig pensla ég gat notað til þess að mála á leirtau. Ég hef málað fyrir fleiri en mömmu,“ segir Katrín og bætir við að hún hafi ekki átt mikinn pening þegar henni var boðið í brúðkaup og ákvað að gera brúðkaupsgjöfina sjálf.

„Mig langaði að gefa eitthvað sem kostaði ekki annan handlegginn en væri samt persónuleg gjöf. Ég keypti því matarstell og lagði vinnu í að finna út hvaða uppáhaldslög eða texta brúðhjónin áttu sameiginlega til þess að nota á stellið.“ Katrín málar einungis á postulín í dag ef hún er beðin um það og hefur gaman af.

Málar frá sér vanlíðan

Regína Þórarinsdóttir Berndsen, móðir Katrínar, fékk hana til þess að …
Regína Þórarinsdóttir Berndsen, móðir Katrínar, fékk hana til þess að mála gólf á setustofu í handverkshúsinu á Laugarbakka. Verkið er 3x3,4 metrar að stærð. Undan sófa sem gestir sitja í kemur foss sem myndar vatn í miðjunnni. Gestir sem sitja í sófanum sitja eins og þeir séu með fæturna í vatninu. Regína límdi niður smámynt við árbakkann og úr varð samvinnuverkefni mæðgnanna. Verkið er unnið með veggmálningu og risapenslum.


„Í dag er ég aðallega að mála akrýlmálverk. Fyrsta myndin sem ég gerði var eftir ljósmynd af syni mínum þegar við vorum á ferðalagi í Taílandi. Mér fannst hún koma mjög vel út og í framhaldinu fór ég að prófa mig áfram.“ segir Katrín.

Katrín virðist vera búin að finna sinn stíl. „Það hentar mér betur að mála form. Ég mála stuðla og er eiginlega búin að gera þá að mínum. Myndirnar segja oft til um líðan mína og hugarástand. Sumar eru bjartar og aðrar dökkar,“ segir Katrín sem á langa sögu þunglyndis.

„Það hjálpar mér stundum að mála vanlíðanina frá mér. Það er samt þannig að í drungalegu myndum er alltaf eitthvað jákvætt, smá ljós með von um betri tíma.“

Katrín hefur fengist smávegis við leirlist. „Mér finnst gaman að leira. Ég komst á bragðið þegar ég var á geðdeild. Ég myndi leira meira ef ég hefði til þess aðstöðu,“ segir Katrín óhrædd við að ræða veikindi sín.

Drungi er verk eftir Katrínu sem hún gaf systur sinni …
Drungi er verk eftir Katrínu sem hún gaf systur sinni Brynju í afmælisgjöf. Brynja er besti vinur Katrínar og hennar helsti klettur í lífinu. Katrín málaði verkið þegar Brynja flutti til Noregs. Katrín túlkar í verkinu hversu mikil áhrif flutningurinn hafði á hana og hún verði oft döpur yfir fjarlægðinni á milli þeirra. Myndin sýnir Brynju sitja á kletti í kápu með hettu en Katrín og Brynja tóku mikið af náttúrumyndum á Vestfjörðum þegar þær voru á ferðalagi. Brynja var í kápunni með hettuna á þeim öllum.


Hún segir að kvíði hái henni mikið. „Kvíðinn gerir það að verkum að það er erfitt að byrja á verki. Mér finnst erfiðara ef ég á að mála eitthvað ákveðið. En auðvitað geri ég það. Ég fékk pöntun um daginn þar sem beðið var um ákveðna stærð, liti og að kærustupar ætti að vera á myndinni. Mér fannst það skemmtilegt verkefni.“

Listamaðurinn Keití

Katrín hélt sína fyrstu myndlistarsýningu á hátíðinni Eldur í Húnaþingi í sumar. „Sýningin var í félagsheimilinu á Hvammstanga og gekk vel. Ég lærði á þessu hvernig halda á málverkasýningar,“ segir Katrín. Hún á ekki nægjanlega margar myndir í dag í nýja sýningu. „Ég er búin að gefa eða selja meirihlutann af myndunum meðal annars á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð. Ég merkti fyrstu myndirnar mínar með Katrín Berndsen en er nú komin með listamannanafnið Keití. Á fésbókarsíðunni Art Keití-Katrín Berndsen getur fólk skoðað, pantað eða keypt myndir af mér.“

Ljósmynd af syninum í Taílandi var fyrsta málverk Katrínar.
Ljósmynd af syninum í Taílandi var fyrsta málverk Katrínar.


Draumur Katrínar er að fara í myndlistarskóla og gera listina að aðalstarfi. Hún býr nú á Akranesi með syninum NataniDegi og hundinum Myrru Dís. „Natan er minn helsti aðdáandi 8 ára gamall. Hann hefur tröllatrú á mér. Sjálfstraust mitt eykst með hverri mynd og hrósi frá kaupendum, segir Katrín og bætir við að hún sé að skrifa og semja ljóð en hún tók ritlist sem aukafag þegar hún lauk BA-prófi í norsku. „Framtíðin leiðir í ljós hvort mér tekst að tvinna þetta allt saman.“

Listahæfileikar Katrínar komu henni og fleiri á óvart. „Ég var ekki handmennta- og myndmenntatýpan í skóla,“segir Katrín hlæjandi.

Ekki tala niður til þín

Málaður postulínsdiskur, málaður fyrir Laugarbakka.
Málaður postulínsdiskur, málaður fyrir Laugarbakka.


Kvíði, frestunarárátta, feimni og þunglyndi hefur hamlað Katrínu í langan tíma. „Ég er að bíða eftir greiningu á því hvort ég sé með athyglisbrest. Ég var stelpan sem dró sig í hlé í skólanum í stað þess að vera uppi um allt og úti um allt. Ég veit að ég hefði sýnt betri námsárangur ef ég hefði fengið að njóta mín.“

Grunur um að Katrín væri með athyglisbrest kviknaði þegar sonur hennar var í greiningarferli. „Ég fékk tíma hjá sálfræðingi og það kviknaði grunur um að ég væri með athyglisbrest. Ef það er niðurstaðan þá útskýrir það af hverju engin þunglyndislyf hafa virkað á mig,“ segir Katrín alvarleg. Fyrir fjórum árum skráði Katrín sig í BA-nám í norsku við Háskóla Íslands. „Ég var svo heppin að ég var með manneskju sem hélt í höndina á mér allan tímann og hjálpaði mér að skipuleggja mig í norskunáminu. Á meðan ég hafði hana og samnemendur til þess að læra með þá kom ég mér frekar að verki. Ég vildi ekki bregðast öðrum. Síðasta árið skildi leiðir og ég var ein. Þá tók kvíðinn og frestunaráráttan yfir. Ég þurfti að skipuleggja mig sjálf og einkunnirnar hröpuðu,“ segir Katrín.

Málaður postulínsdiskur, málaður fyrir Laugarbakka.
Málaður postulínsdiskur, málaður fyrir Laugarbakka.



Hún segist í raun vona að greiningin verði athyglisbrestur. „Þunglyndi getur verið afleiðing af ómeðhöndluðum athyglisbresti. Það verður gott að fá það staðfest að ég er ekki löt og lélegri en aðrir. Mér hefur fundist allir aðrir duglegri og betri en ég. Ég hef kennt syni mínum að tala ekki niður til sín en hef svo ekki farið eftir því sjálf,“ segir Katrín sem hvetur fólk til þess að halda í ljósið og leita allra leiða til þess að láta sér líða betur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert