Fær skaðabætur vegna raflosts í höfuð

Hæstiréttur staðfesti í dag héraðsdóm þar sem skaðabótaskylda VHE var …
Hæstiréttur staðfesti í dag héraðsdóm þar sem skaðabótaskylda VHE var viðurkennd. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms Austurlands þar sem viðurkennd var skaðabótaskylda vélaverkstæðisins VHE vegna líkamstjóns sem starfsmaður hlaut í vinnuslysi á gaffalverkstæði á Reyðarfirði. 

Starfsmaðurinn lýsti atvikum svo að hann hafi haldið á suðutöng og kvaðst hann ekki átta sig á því hvort hann hefði rekið suðutöngina í málm, í höfðuðuð á sér eða hvað gerðist, en hann hafi verið rennblautur af svita og verið að hagræða hjálminum og hettunni til að þurrka svitann. Kvaðst hann telja sig hafa fengið raflost í höfðið sökum þess hve blautur hann var af svita. Hann hafi séð mikla birtu, blossa og fundið mikið högg í gegnum höfuðið. Eftir það muni hann ekki eftir sér fyrr en hann hafi staðið á miðju smiðjugólfi að leita að verkstjóra sínum. 

Eftir slysið leitaði hann alloft lækna, einkum vegna höfuðverkja og sjóntruflana. Nokkur læknisvottorð voru lögð fram í málinu en starfsmaðurinn hefur verið óvinnufær síðan um mitt ár 2013. 

Starfsmaðurinn og VHE deildu meðal annars um hvort starfsmaðurinn hefði orðið fyrir raflosti eða hvort högg það sem hann varð fyrir við slysið ætti sér aðrar skýringar. Talið var að í ljósi þess að verulega hefði skort á að VHE hefði sinnt tilkynningar- og rannsóknarskyldu sinni í kjölfar slyssins og með hliðsjón af matsgerð sérfræðilæknis sem lá fyrir í málinu yrði ekki við annað miðað en að starfsmaðurinn hefi orðið fyrir raflosti eins og hann hafði sjálfur lýst. 

Til viðbótar var talið að rými í klefanum þar sem slysið átti sér stað hefði verið oft þröngt miðað við það verk sem starfsmanninum var ætlað að vinna þar og skort hefði á leiðbeiningum til hans um hættur af starfanum en fyrir lá að hann var ófaglærður. Var því talið að VHE hefði sýnt af sér saknæma vanræslu og krafa starfsmannsins því tekin til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert