Vængur rakst í skrokk vélarinnar

Flugvélarnar tvær rákust saman í háloftunum vestan við Langjökul þann …
Flugvélarnar tvær rákust saman í háloftunum vestan við Langjökul þann 5. september síðastliðinn. mbl.is/Rax

Tildrög flugslyss sem varð þegar tvær litlar flugvélar rákust saman í háloftunum vestan við Langjökul 5. september eru nú til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Frétt mbl.is: Rákust saman í háloftunum

„Vængur á annarri flugvélinni fór í skrokkinn á hinni flugvélinni,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði RNSA, í samtali við mbl.is.

Atvikið átti sér stað í um 3.000 feta hæð. „Þá er verið að tala um yfir sjávarmáli,“ segir Ragnar, sem hefur ekki upplýsingar um hversu langt frá jörðu vélarnar voru þegar þær rákust saman. Verið er að safna radargögnum sem geta sýnt fram á nákvæma staðsetningu og hæð vélanna.

„Það er verið að athuga hvort þessar upplýsingar séu til, en það er ekki víst að í þessum hæðum séu til gögn af vélinni,“ segir Ragnar.

Eftir að vélarnar rákust saman var tekin ákvörðun um að fljúga til Reykjavíkur. „Þær lentu báðar á Reykjavíkurflugvelli og skemmdirnar komu í ljós eftir að þær lenda,“ segir Ragnar.

Tveir voru innanborðs í hvorri vél og sluppu allir ómeiddir. Skýrsla hefur verið tekin af áhöfnum beggja vélanna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert