Akstur krefst fullrar athygli

K100-útvarpsmaðurinn Sigvaldi Kaldalóns var fenginn til að senda skilaboð undir …
K100-útvarpsmaðurinn Sigvaldi Kaldalóns var fenginn til að senda skilaboð undir stýri á akstursbraut Ökuskóla 3. Það fór ekki vel eins og sjá má í myndbandi á Facebook-síðunni Svali&Svavar. Ljósmynd/Landsbjörg

Vertu snjall undir stýri nefnist átak sem Slysavarnafélagið Landsbjörg ýtti nýverið úr vör. Tilgangur þess er að vekja bílstjóra til umhugsunar um þá miklu ábyrgð sem fylgir því að vera úti í umferðinni og nota snjalltæki undir stýri með mögulegum lífshættulegum afleiðingum.

Slysatölur frá Evrópu og Ameríku sýna að 25% allra slysa í umferðinni megi rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri og er það sama hér á landi.

„Þetta er áhyggjuefni alls staðar í heiminum og við verðum að trúa því að við getum breytt þessu. Samgöngustofa gerði viðhorfskönnun á Íslandi í fyrra, þar sögðu 90% hættulegt að nota tækið undir stýri en af sama hópi sögðust 43% samt gera það, þau vita að þetta er hættulegt en stunda samt þessa áhættuhegðun. Ég held að þetta sé stærri ógnvaldur í okkar samfélagi en við gerum okkur grein fyrir,“ segir Svanfríður Anna Lárusdóttir, stjórnarmaður hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og talsmaður átaksins Vertu snjall undir stýri.

Höfum gert þetta áður

Svanfríður segir viðhorfsbreytingu þurfa að koma til hjá fólki og verkefnið sé liður í að vekja það til vitundar. „Nú er verið að skoða að þyngja mjög sektina við því að nota snjalltæki undir stýri, það gæti kostað í 40.000 kr. ef lögreglan nær þér. Það hjálpast allt að; að breyta reglum og að breyta viðhorfi.“

Svanfríður bendir á að Íslendingar hafi áður tekið saman höndum og breytt viðhorfum í umferðinni í sameiningu, t.d. með barnabílstóla og öryggisbelti. „Við getum þetta alveg en þurfum bara öll að vera vakandi.“

Átakið er til næstu fimm ára og beint að öllum hópum ökumanna. „Rannsóknir hafa sýnt að notkun snjalltækja undir stýri er ekki tengd við aldurshópa. Það eru allir að nota símann undir stýri en það er misjafnt hvað fólk er að gera. Elstu hóparnir eru mest að tala í hann en yngri hópar eru að gera ýmislegt annað eins og að senda textaskilaboð, horfa á „snöpp“ og á YouTube. Einhvern veginn er þessi tækni búin að læðast smátt og smátt þessa leið og við verðum að fara að spyrna við fótum,“ segir Svanfríður.

Fengu fyrirtæki og fræga í liðið

Í tengslum við átakið „Vertu snjall undir stýri“ skrifuðu nokkur stór fyrirtæki sem eru með marga bíla í umferð undir samning um samfélagslega ábyrgð og mun Samgöngustofa standa fyrir fræðslu um hætturnar sem fylgja notkun snjalltækja undir stýri í þeim fyrirtækjum. Fyrirtækin merkja svo bílana sína með slagorði verkefnisins og miðla þannig boðskapnum til annarra ökumanna.

Þá fékk Landsbjörg þrjá þekkta einstaklinga; Pál Óskar Hjálmtýsson, Sólrúnu Diego og Sigvalda Kaldalóns til að gera tilraunir á akstursbraut. Þau fengu mismunandi verkefni sem öll snúa að notkun á snjalltæki undir stýri á meðan þau keyrðu. Óvæntir hlutir urðu á vegi þeirra með tilheyrandi afleiðingum en myndbönd frá aksturstilraun þeirra má sjá á vefnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert