„Ekki mest spennandi laugardagur sem við höfum upplifað“

Það verður regnkápuveður um helgina.
Það verður regnkápuveður um helgina. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er nú lítið spennandi veður. Mikið vatnsveður og hvasst með þessu en þetta er ekki mest spennandi laugardagur sem við höfum upplifað,“ segir Theodór Freyr Hervarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um veðrið á morgun.

Kröpp lægð kemur upp að landinu í fyrramálið með hlýju lofti og miklum raka og tilheyrandi rigningu og hvassviðri og er búist við stormi á morgun.

Að sögn Theodórs verður mesta hvassviðrið nokkuð staðbundið meðfram suðurströndinni, einkum í nágrenni við Skaftafell og undir Eyjafjöllum. Búast má við að mesta hvassviðrið standi yfir í um tvo til þrjá klukkutíma, frá því í fyrramálið og eitthvað fram yfir hádegi. Mesta hvassviðrið ætti að vera gengið yfir um tvö- eða þrjúleytið á morgun en áfram verður strekkingsvindur víða um land.

„Þetta er dálítið mikið votviðri á Suðvestur- og Austurlandi og á Austfjörðum. Það reyndar mun líka rigna hressilega í öðrum landshlutum þegar að skilin fara yfir eins og hér við Faxaflóa en það er ekkert í líkingu við það sem er fyrir austan,“ segir Theodór.

Ferðaviðvörun vegna hvassviðris

Fólk sem er á ferðinni, einkum meðfram suðurströndinni í fyrramálið, ætti að fylgjast vel með veðri og gæti þurft að gera viðeigandi ráðstafanir. „Menn þurfa bara að gera ráð fyrir því í sínum ferðalögum og vera ekki að þvælast á einhverjum ökutækjum sem taka á sig mikinn vind og eru létt, sama með tengivagna,“ segir Theodór.

Búist er við stormi og miklu votviðri á morgun.
Búist er við stormi og miklu votviðri á morgun. mbl.is/ Rax

Þó nokkur væta verður víða um land, einna mest á Suðvesturlandi og í fjalllendi Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls en rigning verður víðast hvar á landinu. „Þetta mun teygja sig inn á Austfirði, sérstaklega sunnanverða Austfirði en það mun rigna duglega samt sem áður á öllum Austfjörðum,“ segir Theodór.

Heldur áfram að rigna á sunnudaginn, sérstaklega á Suðausturlandi, en þó í minna mæli en búast má við á morgun. Hiti verður á bilinu 7-13 stig. 

Veðurhorfur næstu daga

Á sunnudag:
Suðaustan hvassviðri og rigning, en þurrt að mestu norðanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á norðausturhorninu. Hægari vindur og skúrir um kvöldið. 

Á mánudag:
Allhvöss suðaustanátt og fer að rigna aftur á sunnanverðu landinu, en þurrt norðan heiða. Hiti 8 til 13 stig. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Suðaustlæg átt ríkjandi með rigningu og mildu veðri, en úrkomulítið norðanlands.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert