Sjúkratryggingar sýknaðar af kröfu SÁÁ

SÁÁ var gert að greiða málskostnaðinn og Sjúkratryggingar voru sýknaðar …
SÁÁ var gert að greiða málskostnaðinn og Sjúkratryggingar voru sýknaðar af kröfum samtakanna. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði áður sýknað íslenska ríkið af kröfu SÁÁ um að Sjúkratryggingar greiddu samtökunum skuld sem þau töldu til komna vegna vanefnda á greiðslum fyrir áfengis- og vímuefnameðferð sjúkratryggðra einstaklinga.

SÁÁ stefndi rík­inu í janúar í fyrra vegna meintra vanefnda Sjúkra­trygg­inga Íslands (SÍ) á samn­ingi sem gerður var í des­em­ber 2012 um þjón­ustu göngu­deild­ar SÁÁ. Samn­ing­ur­inn var staðfest­ur af vel­ferðarráðherra, en ágreiningur hafði verið um greiðslur fyrir þjónustuna frá upphafi og hafnaði SÁÁ túlk­un Sjúkra­trygg­inga á samn­ingstext­an­um.

Snerist deilan m.a. um það hvernig túlka ætti orðið hópmeðferð í samningnum og taldi Hæstiréttur að líta yrði svo á að hver hópmeðferð yrði að standa í allt að þrjár klukkustundir til að skylt væri að greiða fullt gjald fyrir hana, samkvæmt samningi. Sjúkratryggingum væri því heimilt að greiða lægri upphæð fyrir skemmri meðferðartíma. Var SÁÁ því gert að bera allan kostnað af því að forsvarsmenn samstakanna hefðu talið annað felast í samningnum.

Einnig var deilt um hvort Sjúkratryggingum hefði verið heimilt að segja samningnum upp með þeim hætti sem gert var, en stofnunin sagði samningnum upp með fjögurra mánaða fyrirvara. Var það mat Hæstaréttar að Sjúkratryggingum hefði verið heimilt að segja samningnum upp með þeim hætti sem gert var, „enda hefði uppsagnarfresturinn verið hæfilegur miðað við efni samningsins og önnur atvik.“

Áður hafði héraðsdómur úrskurðað að uppsögnin hafi verið óheimil, en þar sem niðurstaða dómsins hafi verið að Sjúkratryggingar hafi efnt samninginn að fullu skipti ekki máli hvort uppsögnin hafi verið heimil eða ekki.

Úrskurðaði Hæstiréttur að SÁÁ skyldi greiða ríkinu 700.000 kr. í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert