Telur ESB og evruna vera lausnina við háum vöxtum og verðtryggingu

Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.
Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagði að innganga í Evrópusambandið, upptaka evrunnar væri besta lausnin við háum vöxtum og verðtryggingu á Íslandi við dræmar móttökur fundarmanna á fundi Verkalýðsfélags Akranesson og VR sem fram fór í Háskólabíói í gær. 

„Besta leiðin gegn of háum vöxtum er heilbrigt og stöðugt efnahagslíf og sá stöðugleiki hefur einfaldlega ekki verið fyrir hendi, og þá á ég einmitt við stöðugleika fyrir íslensk heimili eins og hér hefur verið kallað eftir,“ sagði Ágúst Ólafur og benti á tvö atriði sem hann telur vera ástæða hárra vaxta og verðtryggingar. 

„Í fyrsta lagi hafa þrjár síðustu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins sprungið og það er slíkur pólitískur óstöðugleiki af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem skapar efnahagslegan óstöðugleika. Vextir endurspegla meðal annars væntingar um hagvöxt og verðbólgu og því skipta væntingar um efnahagslegan stöðugleika miklu máli.“

„Í öðru lagi liggur grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar í gjaldmiðlinum. Hjá þeirri staðreynda verður einfaldlega ekki komist. Krónan okkar er og hefur verið slæmur förunautur. Stundum getur hún verið sjávarútvegsfyrirtækjunum og ferðaþjónustunni hagstæð og stundum getur hún verið innflutningsfyrirtækjunum jákvæð. En sveiflast mun krónan, sagan sýnir það. Við eigum að hætta að nýta gengisfellingar sem einhvers konar viðbragð við efnahagsástandinu enda er það almenningur sem borgar alltaf brúsann, alltaf. Lausnin er því í nýjum gjaldmiðli og í því sambandi er einungis einn kostur sem kemur til greina að mati langflestra sérfræðinga. Það er evran með aðild að ESB,“ sagði Ágúst við dræmar móttökur fundarmanna sem hann hvatti til að hlusta þegar þeir púuðu og kölluðu. „Það er engin tilviljun eða heimska að 19 þjóðir í Evrópu hafa kosið þessa leið. Það eru 28 þjóðir sem hafa farið inn í ESB með nákvæmlega það markmið að stuðla að stöðugleika. Við getum ekki aðskilið þessa umræðu, vexti og verðtryggingu frá gjaldmiðli. Þið megið alveg gera það, ég geri það ekki. Á meðan við búum við krónuna þá munum við búa við verðtrygginguna.“

Fundargestir tóku misvel í hugmyndir Ágústar um ESB og evruna.
Fundargestir tóku misvel í hugmyndir Ágústar um ESB og evruna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá vísaði Ágúst til þess að stærstu fyrirtæki landsins og sjávarútvegsfyrirtæki hafi nú þegar yfirgefið krónuna. „Takið eftir því, hverjir hafa yfirgefið krónuna, það eru helstu stærstu fyrirtæki landsins, það er almenningur sem situr uppi með krónuna. Sjávarútvegsfyrirtækin gera upp í öðrum gjaldmiðli, það erum við almenningur sem situr uppi með krónuna og sveiflurnar. Við eigum núna einstakt lag til að endurskipuleggja fjármálakerfið út frá hagsmunum almennings, ekki útfrá hagsmunum fjármagnseigenda. Til dæmis er í góðu lagið að ríkið eigi fjármálastofnun, við eigum ekki að einkavæða allar fjármálastofnanir. Sporin í þessum efnum hræða, það tók íslenska bankamenn fjögur ár að reka íslensku bankana á hausinn efitr einkavæðingu. Við þurfum að hugsa þetta kerfi upp á nýtt, einmitt út frá hagsmunum íslenskra heimila.“

Vill aukna samkeppni á fjármálamarkað

Loks varpaði Ágúst fram þeirri hugmynd að efla þurfi samkeppni á íslenskum bankamarkaði. „Þið sáuð gerðist þegar Costco kom inn á dagvörumarkaðinn. Að sjálfsögðu þurfum við aukna samkeppni á íslenskum bankamarkaði til að ná kjörunum betur til almennings, til að ná kjörunum til almennings. Vextir eru ekkert annað en verð á peningum og peningar á íslandi eru dýrir meðal annars vegna krónunnar og vertryggingin er ekkert annað en hækja krónunnar sem við munum ekki losna við fyrr en blessaða krónan okkar fær að setjast í helgan stein. Tími krónunnar er einfaldlega liðinn og um leið og það gerist þá verður tími verðtryggingarinnar einnig liðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert