Áframhaldandi hætta vegna vatnavaxta

Veðurútlit á miðnætti í kvöld. Þá ganga ný skil yfir …
Veðurútlit á miðnætti í kvöld. Þá ganga ný skil yfir landið.

Mikið vatn er nú í öllum lækjum á Ólafsfirði og segir lögregla á Siglufirði hlíðina hreinlega vera hvíta af öllum lækjunum. Mik­il rign­ing var á Strönd­um, norðan­verðum Trölla­skaga og aust­ur á Skjálf­anda í gærkvöld og nótt og varaði Veðurstofan við hættu á skriðföllum og vatnavöxtum í ám þessum samfara.

Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir engar fréttir hafa borist af skriðuföllum enn sem komið er en rigningunni sé þó ekki lokið. „Það dró aðeins úr rigningu undir hádegi, en síðan hefur rigning aukist aftur á ný. Þannig að þetta er ekki alveg búið,“ segir Hrafn. Útlit sé þó fyrir að það muni draga úr úrkomunni síðdegis eða í kvöld.

„Síðan koma ný skil inn á landið sunnantil í kvöld. Það byrjar að rigna á höfuðborgarsvæðinu undir miðnætti í kvöld og síðan byrjar aftur að rigna á norðvesturlandi seint í nótt. Þar mun rigna allan daginn á morgun og gæti úrkoman reynst töluverð og verður því áframhaldandi hætta vegna vatnavaxta næsta sólahringinn.“

Veðurvefur mbl.is

Ferðafélag Íslands greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að 15 sm jafnfallinn snjór væri nú í Landmannalaugum. Hrafn segir slyddu eða snjókomu hafa verið uppi á hálendi og efst á fjallvegum.  Þó veðrið hafi annars verið tiltölulega milt í það heila og hitastig á bilinu 4-8 gráður.

„Það sama verður uppi á teningnum í þessum skilum sem eru á leiðinni,“ segir hann. Rigning verði á láglendinu en efst á heiðum séu þó töluverðar líkur á að myndist hálka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert