Og svo spyrnti Öskubuska

Fagnað í leikslok - íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Fagnað í leikslok - íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland á mun færri leikmenn í bestu sparkdeildum Evrópu en hinar þjóðirnar átta sem unnu riðla sína í undankeppni HM karla í Rússlandi; aðeins fjórir leika á Englandi, Ítalíu og í Þýskalandi og enginn á Spáni eða í Frakklandi. Fimm leikmenn úr þessum níu liðum leika í B-deildinni á Englandi, þar af fjórir Íslendingar og þrír þeirra eiga ekki einu sinni fast sæti í sínum liðum.

Íslendingar urðu í vikunni langfámennasta þjóðin til að vinna sér þátttökurétt á lokamóti HM karla í knattspyrnu frá upphafi en mótið var fyrst haldið í Úrúgvæ fyrir 87 árum. Það met verður líklega seint slegið; ætli eina leiðin sé ekki að Íslendingum fækki á komandi árum og misserum, eins og Bjarni Guðjónsson, sparkskýrandi Ríkissjónvarpsins, benti á í beinni útsendingu frá leiknum gegn Kósóvó, þar sem farseðillinn var geirnegldur.
Gylfi Sigurðsson.
Gylfi Sigurðsson. mbl.is/Golli

En það er fleira en fámenni þjóðarinnar sem vekur athygli þegar þetta truflaða afrek strákanna okkar er skoðað. Eins og til dæmis hvar landsliðsmennirnir vinna dags daglega fyrir kaupinu sínu og að bera það síðan saman við leikmenn hinna Evrópuþjóðanna átta sem unnu sína riðla í undankeppninni.

Fjórir í bestu deildunum

Sögulega bera fjórar deildir ægishjálm yfir aðrar deildir í Evrópu; enska, spænska, ítalska og þýska úrvalsdeildin. Hvað býr Ísland að mörgum leikmönnum í þessum deildum? Fjórum. Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson leika í ensku úrvalsdeildinni; hvorugur þó í liði sem vann sér þátttökurétt í meistaradeild Evrópu á yfirstandandi leiktíð eða yrði skilgreint sem „topp 6“ lið í deildinni. Þetta eru Everton og Burnley. Emil Hallfreðsson leikur með Udinese, sem er í 13. sæti ítölsku A-deildarinnar, og Alfreð Finnbogason með Augsburg sem er í 6. sæti þýsku búndeslígunnar.

Af öðrum leikmönnum í og við byrjunarlið landsliðsins leika Ragnar Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason í býsna sterkri deild, þeirri rússnesku, með Rubin Kazan og Rostov, Kári Árnason leikur með Aberdeen í Skotlandi, deild sem þykir ekki sérlega sterk og Ari Freyr Skúlason í efstu deild í Belgíu með Lokeren. Hannes Þór Halldórsson leikur með Randers í Danmörku og Birkir Már Sævarsson með Hammarby í Svíþjóð. Engin af þessum deildum er að skila mörgum leikmönnum inn á lokamót HM næsta sumar, nema helst sú rússneska.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. mbl.is/Golli

Þá eru ótaldir fjórir lykilmenn sem leika í B-deildinni í Englandi; Aron Einar Gunnarsson með Cardiff, Birkir Bjarnason með Aston Villa, Jón Daði Böðvarsson með Reading og Hörður Björgvin Magnússon með Bristol City. Það sem meira er, aðeins Aron getur talist eiga fast sæti í sínu liði. Hinir hafa mikið þurft að verma varamannabekkinn í vetur, líkt og Ragnar Sigurðsson gerði hjá Fulham á liðinni leiktíð.

Hafa ber í huga að enska B-deildin er erfið deild og mögulega sú sterkasta sinnar tegundar í heiminum. En hvers vegna leikmenn sem eru burðarásar í landsliði sem vinnur HM-riðil í Evrópu og hafa ítrekað sannað gæði sín eiga ekki fast sæti í liðum sínum í þeirri deild er sannarlega rannsóknarefni fyrir sparkvísindamenn.

Lítum þá á hin landsliðin átta, sem unnu riðla sína. Leikmenn Englands leika allir í ensku úrvalsdeildinni og flestir með meistaradeildarliðunum Manchester United, Manchester City, Liverpool, Tottenham Hotspur og Chelsea. Mig rekur ekki minni til að B-deildarmaður hafi gert garðinn frægan með enska landsliðinu síðan Steve gamli Bull var og hét fyrir meira en aldarfjórðungi.

Spænska landsliðið er eingöngu skipað leikmönnum sem leika í spænsku úrvalsdeildinni eða sambærilegum deildum á Englandi, Ítalíu eða í Þýskalandi.

Þýsku landsliðsmennirnir sem ekki leika heima eru á mála hjá liðum á Englandi, Spáni, Ítalíu og í Frakklandi, en sú deild er auðvitað mjög sterk líka enda þótt breiddin sé líklega minni en í hinum fjórum. Sömu sögu má segja af Frökkunum, leiki þeir ekki heima eru þeir á Englandi, Spáni, Ítalíu eða í Þýskalandi.

Kína og Kanada

Landsliðsmenn Belgíu vinna flestir fyrir salti í grautinn í ensku úrvalsdeildinni en í því liði má einnig finna menn sem spila í Kína og jafnvel Kanada. Leikmenn Portúgal dreifast víðar, leika meðal annars í Tyrklandi og Skotlandi, auk þeirra deilda sem hér hafa verið þránefndar. Og svo auðvitað heima í Portúgal.

Mesta dreifingin er hins vegar hjá Serbíu og Póllandi, landsliðsmenn þeirra þjóða leika vítt og breitt um heiminn. Í leikmannahópi Serba fyrir lokaleikina tvo í riðlinum voru til dæmis tveir sem leika í Danmörku og einn í Kína.

Fyrir utan Ísland er Pólland eina þjóðin sem vann riðil sinn sem hefur á að skipa leikmönnum sem leika utan efstu deildar en Kamil Grosicki og Paweł Wszołek leika með Hull og QPR í ensku B-deildinni.

Sú ágæta deild mun því fylgjast stolt með HM í Rússlandi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert