Tóku upp atriði í Hvalfjarðargöngunum

Frá tökunum í Hvalfjarðargöngum í nótt.
Frá tökunum í Hvalfjarðargöngum í nótt. Ljósmynd/Spölur

Mótorhjólaatriði í stuttmynd með nýju lagi bandaríska tónlistarmannsins Elliot Moss var tekið upp í Hvalfjarðargöngum í nótt. Kvikmyndagerðarmenn nýttu sér tækifærið þegar göngin voru lokuð vegna viðhalds og þrifa og sviðsettu dramatíska mótorhjólaferð sem endaði miður vel.

Þetta kemur fram á heimasíðu Spalar.

Þar segir að Moss sé býsna þekktur í Bandaríkjunum og víðar og að heill her kvikmyndagerðarmanna sé staddur á Íslandi til að taka upp myndband sem verður notað til að kynna hans nýjasta lag.

Hópurinn var staddur í Reynisfjöru og í Vík í Mýrdal við upptökur í gær og í Hvalfjarðargöngum frá miðnætti til kl. 5 í morgun. Í dag verður fram haldið á þjóðveginum fyrir botni Hvalfjarðar.

Leikstjórinn og upptökumaðurinn eru japanskir en aðrir í hópnum eru franskir, sem og strákur og stelpa sem þeysast um á mótorhjóli og sagan snýst um.

Sjálft mótorhjólið er Honda, kjörgripur af árgerð 1975, í eigu Guðmundar Steinþórssonar, sem var þeim til aðstoðar í nótt.

Á vettvangi var líka Kiljan Vincent Paoli, aðstoðarmaður tökuliðsins. Faðir hans er franskur kvikmyndaframleiðandi og móðirin er íslensk.

Myndbandið við lagið Slip með Elliot Moss:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert