„Þetta eru umtalsverðar upphæðir“

Flugvélar Air Berlin.
Flugvélar Air Berlin. AFP

Öllum farþegum flugfélagsins Air Berlin, sem áttu bókað flug með vél félagsins sem var kyrrsett í Keflavík, var boðin ferð með annarri vél félagsins sem var á leið til sama lands og kyrrsetta vélin. 

Fram kom í tilkynningu frá Isavia skömmu eftir miðnætti að flugvél Air Berlin hefði verið kyrrsett vegna not­enda­gjalda sem eru í van­skil­um og eru til­kom­in vegna greiðslu­stöðvun­ar Air Berl­in. Isavia hefur heimildir til að kyrrsetja loftför til að tryggja greiðslur slíkra gjalda.

Vélin sem var kyrrsett átti að fara til Düsseldorf en farþegum var boðið upp á flug til Berlínar í staðinn. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, sagði í samtali við mbl.is að allir nema þrír farþegar sem áttu pantað flug með vélinni til Düsseldorf hefðu þegið breytingarnar. Flugfélagið hefði gengið frá hótelgistingu fyrir þá þrjá sem eftir urðu hér á landi.

Guðni sagðist ekki geta farið út í hvað Air Berlin skuldaði mikið. „Við viljum ekki fara út í viðskiptastöðu viðskiptavina okkar almennt. Þetta eru umtalsverðar upphæðir og við færum ekki út í svona neyðarúrræði nema um háar upphæðir sé að ræða og við teljum ekki miklar líkur á því að það komi greiðsla,“ sagði Guðni.

Hópveikindi flugmanna í september

Þessu úrræði hefur einu sinni áður verið beitt á Keflavíkurflugvelli. Air Berlin lýsti yfir greiðsluþroti 15. ág­úst síðastliðinn eft­ir að stærsti hlut­haf­inn, Eti­had Airways, gaf út að hann myndi ekki veita fé­lag­inu frek­ari fjár­hags­stuðning.

Síðan þá hefur ýmislegt gengið á en flugmenn félagsins hófu óhefðbundnar verkfallsaðgerðir í síðasta mánuði. Reynslumeiri flugmenn hringdu sig þá inn veika sem varð til þess að Air Berlin varð að aflýsa um 100 flugferðum. 

Svo virðist sem flug­menn­irn­ir hafi gripið til þessa ráðs til að mót­mæla stöðu flug­manna inn­an fyr­ir­tæk­is­ins eft­ir að til­kynnt var um greiðsluþrot þess.

Flug­menn­irn­ir hafa lýst yfir áhyggj­um þess efn­is að flug­mönn­um sem hafa starfað til lengri tíma hjá fyr­ir­tæk­inu, og eru því launa­hærri, verði sagt upp þegar annað fyr­ir­tæki tek­ur yfir rekst­ur­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert