Nálgunarbann eftir langvarandi ofbeldi

Maðurinn er sakaður um langvarandi gróft ofbeldi í garð konunnar.
Maðurinn er sakaður um langvarandi gróft ofbeldi í garð konunnar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að karlmaður skyldi sæta brottvísun af heimili og nánar tilgreindu nálgunarbanni. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn skuli sæta brottvísun og nálgunarbanni af heimili í fjórar vikur. Lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað sinn og í 50 metra radíus umhverfis heimili konunnar.

Einnig er lagt bann við því að maðurinn veiti konunni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með síma, í gegnum samfélagsmiðla eða með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögregla hafi til rannsóknar ætlað langvarandi ofbeldi mannsins í garð sambýliskonu sinnar. Hún hafi við skýrslutöku lýst langvarandi grófu líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi hans í sinn garð. 

Þau hafi kynnst árið 2007 og átt í ástarsambandi. Upp úr því hafi slitnað en þau hafi tekið upp þráðinn 2011 og hafið ástarsamband að nýju en í kjölfarið hafi ofbeldið byrjað. Þau hafi átt í sambandi með hléum síðan en konan hafi lýst ítrekuðu ofbeldi mannsins í sinn garð frá árinu 2011, bæði hérlendis og erlendis.

Hlaut dóm í Svíþjóð

Hafi hún greint frá því að hann hafi hlotið eins árs fangelsisdóm í Svíþjóð árið 2014 fyrir ofbeldi gegn henni auk þess sem honum hafi verið gert að sæta nálgunarbanni. Hafi hún jafnframt lagt fram gögn úr málinu frá Svíþjóð.

Síðast hafi maðurinn beitt hana kynferðislegu ofbeldi í júlí sl. og síðast líkamlegu ofbeldi í júní sl. er þau hafi verið í fríi á Spáni. Eftir það hafi hún skipt um símanúmer vegna hótana frá manninum, bæði í hennar garð og sonar hennar.

Maðurinn neitaði öllu og sagði að konan væri að ljúga upp á hann. Hún væri fullfær um að veita sjálfri sér áverka og hefði einnig logið upp á hann þegar hann var dæmdur í fangelsi í Svíþjóð.

Samkvæmt málakerfi lögreglu hefur ítrekað verið tilkynnt um ofbeldi mannsins í garð konunnar í gegnum árin en tekin voru dæmi um sjö mál því til staðfestingar. Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að konunni stafi mikil ógn af manninum og hún sé í afar veikri stöðu gagnvart honum sem hann notfæri sér.

Með vísan til alls þessa telur dómurinn skilyrði um nálgunarbann uppfyllt. Maðurinn sætir því brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur.

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert