„Klukkan okkar er vitlaus“

Festing staðarklukku á Íslandi á sumartíma allt árið var tekin …
Festing staðarklukku á Íslandi á sumartíma allt árið var tekin áður en skilningur var kominn á mikilvægi líkamsklukku og morgunbirtu til að stilla líkamsklukku af. AFP

Eins og staðan er í dag þá er klukkan hálfsex þegar við vöknum klukkan sjö á morgnana, miðað við sólargang,“ segir dr. Erna Sif Arnardóttir en hún er formaður Hins íslenska svefnrannsóknarfélags sem vill seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund.

Félagið óskaði eftir svörum frá stjórnmálaflokkum sem eru í framboði til alþingiskosninga um hver afstaða þeirra væri varðandi breytingar á staðarklukku á Íslandi. Einnig hvort flokkar myndu vilja seinka klukkunni allt árið eða breyta í sumar- og vetrartíma.

Erna segir málið mikilvægt lýðheilsumál og bendir á að vísindamenn sem uppgötvuðu gang líkamsklukkunnar á níunda áratugnum hafi hlotið nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði í ár. 

Morgunbirtan skiptir mestu máli

Hún bendir á að ákvörðunin um að festa staðarklukku á Íslandi á sumartíma allt árið um kring hafi verið tekin áratugum áður en skilningur var tilkominn á mikilvægi líkamsklukkunnar og morgunbirtunnar til að stilla líkamsklukkuna af.

„Morgunbirtan er það sem skiptir mestu máli við að stilla okkur af og halda okkur í takt við tímann. Ef við byggjum í helli og það væri engin sólarbirta þá myndum við alltaf fara seinna og seinna að sofa, og seinna á fætur. Við þurfum morgunbirtuna til að hjálpa okkur að vera í þessum 24 tíma takti,“ segir Erna.

Þar af leiðandi er erfiðara að koma sér á fætur í skammdeginu, þegar morgunbirtan er ekki til staðar. „Margir seinka sér mjög mikið til að mynda í jólafríinu en það má kalla þetta klukkuþreytu; að vilja fara seinna að sofa og vakna seinna á frídögum en maður þarf að gera vegna vinnu og skóla. Íslendingar eru með meiri klukkuþreytu en aðrar þjóðir og klukkan okkar er vitlaus.“

Sjö af ellefu flokkum í framboði svöruðu fyrirspurninni og enginn þeirra var mótfallinn leiðréttingu á staðarklukku, þó að flestir hafi þeir ekki mótað sér formlega stefnu í málinu. Engin svör bárust frá Pírötum, Dögun og Samfylkingunni.

Björt framtíð vill seinka klukkunni

Björt framtíð vill seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund og segir að þetta sé mikilvægt lýðheilsumál. Vinstri græn hafa ekki tekið formlega afstöðu til málsins en taka í sama streng og segja mikilvægt „að hlustað sé á vísindamenn á sviði lýðheilsu sem telja að líffræðileg og félagsfræðileg rök hnígi að því að stilla klukkuna meira í takt við líkamsklukkuna, sem aftur er háð hnattstöðunni. Það er staðreynd að þegar sól er hæst á lofti á Íslandi yfir vetrartímann er klukkan í Reykjavík hálftvö, en ekki tólf.“

Alþýðufylkingin og Flokkur fólksins styðja einnig að staðarklukkan fylgi betur sólarhringnum og líkamsklukkunni. Viðreisn hefur ekki mótað sér stefnu í málinu en flokkurinn segist „óhræddur við breytingar og reiðubúinn að vega og meta öll málefnaleg sjónarmið faglega með hagsmuni almennings að leiðarljósi“. Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Framsókn höfðu ekki myndað sér afstöðu til málsins. 

Þingályktunartillaga um seinkun staðarklukku hefur alls verið lögð fram fjórum sinnum frá árinu 2010 á þingi og hefur verið þverpólitísk samstaða í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert