Einstaklingum utangarðs fjölgað verulega

Fólki sem er utangarðs í borgarsamfélaginu hefur fjölgað verulega undanfarin …
Fólki sem er utangarðs í borgarsamfélaginu hefur fjölgað verulega undanfarin ár. Ekki eru þó allir sem flokkast sem utangarðs heimilslausir. Nætursvefn og hvílustaður er aðeins eitt fjölmargra áhyggjuefna þeirra sem eru utangarðs. mbl.is/Golli

349 einstaklingar voru skráðir sem utangarðs í júní á þessu ári. Karlar eru í meirihluta meðal utangarðsfólks, eða 238. Hefur fjölgað verulega í hópnum síðan sambærileg kortlagning var gerð árið 2012, en þá voru 179 einstaklingar sem töldust utangarðs. Því er um að ræða 95% fjölgun.

Utangarðsfólk er flest af íslenskum uppruna, eða 86,5%, 6% eru frá Póllandi og 5,3% frá tólf öðrum löndum. Flestir sem skilgreinast utangarðs í borgarsamfélaginu eru á aldrinum 21-40 ára, eða um helmingur.

Þetta kemur fram í skýrslu um hagi og líðan utangarðsfólks sem kynnt var á fundi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með fulltrúum Rauða krossins, Samhjálpar, SÁÁ og Fangelsismálastofnunar í síðustu viku, en þar var kynnt skýrsla sviðsins um aðstæður þeirra sem skilgreinast sem utangarðs í borgarsamfélaginu.

Utangarðsfólk er ekki endilega húsnæðislaust en skilgreining á því hvað það þýðir að vera utangarðs má finna í skýrslunni, en hana er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Flestir utangarðs á aldrinum 21-40 ára

Flestir sem skilgreinast utangarðs í borgarsamfélaginu eru á aldrinum 21–40 ára, eða tæpur helmingur og fæstir voru í yngstu og elstu aldurshópunum, eða tvö prósent  á aldrinum  18–20 ára og sjö prósent 61–80 ára.

Áfengisvandi og misnotkun annarra vímuefna voru talin helsta orsök þess að einstaklingar lendi utangarðs en næstalgengasta orsökin eru geðræn vandamál.  80% þeirra 142 utangarðsmanna sem eru með geðrænan vanda glíma einnig við áfengis-  og vímuefnavanda.

Flestir sem eru utangarðs eru á aldrinum 21-40 ára.
Flestir sem eru utangarðs eru á aldrinum 21-40 ára. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tveir þriðju neyta áfengis og annarra vímuefna að staðaldri

Flestir neyta áfengis- og annarra vímuefna að staðaldri, eða 62% þeirra en 23% einstaklinganna voru hættir neyslu. Hlutfall karla og kvenna er jafnt hvað varðar neyslu áfengis og annarra vímuefna að staðaldri. Einnig er það nokkuð jafnt hlutfall milli kynja þegar kemur að neyslu annarra vímuefna en áfengis. Karlar sem neyta eingöngu áfengis eru hlutfallslega fleiri en konur og hlutfallslega fleiri karlar hafa hætt neyslu.

Fram kemur í tilkynningu vegna skýrslunnar á vef Reykjavíkur að borgarráð hafi samþykkt að fjölga félagslegum íbúðum um að lágmarki 500 á árunum 2015-2020 og um 100 til viðbótar til 2034.

Fyrir einstaklinga sem eiga í margháttuðum félagslegum vanda, s.s. vegna áfengis- og vímuefnaneyslu rekur velferðarsvið sjö heimili fyrir 60 íbúa. Heimilin eru sum hver starfrækt með þjónustusamningum og í samstarfi við félagasamtök. Markmiðið er m.a. að veita víðtækan stuðning sem lið í endurhæfingu og aðlögun að sjálfstæðri búsetu. Reykjavíkurborg styrkir auk þess rekstur áfangaheimila sem rekin eru af þriðja aðila og alls tekur borgin þátt í að greiða kostnað vegna 142 rýma á áfangaheimilum.

Skýrsla velferðarsviðs um hagi og líðan utangarðsfólks í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert