Suðurlandsvegur lokaður vegna óhapps

Löng bílaröð hefur myndast í Hveradölum þar sem þessi mynd …
Löng bílaröð hefur myndast í Hveradölum þar sem þessi mynd var tekin í vefmyndavél Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

Suðurlandsvegur um Hellisheiði er lokaður vegna umferðaróhapps, nánar tiltekið í Hveradalabrekku. Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi er ekki vitað hve lengi vegurinn verður lokaður.

Umferð er beint um Þrengslaveg, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fréttin hefur verið uppfærð

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi fór bifreið þversum í brekkunni og er verið að koma bifreiðinni í rétta akstursstefnu og því aðeins um tímabundna lokun að ræða. Engin slys urðu á fólki. 

Hálka er á Hellisheiði og Þrengslum og hálkublettir á Lyngdalsheiði en annars er að mestu greiðfært á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er víða greiðfært en þó er hálka á Holtavörðuheiði og hálkublettir á nokkrum leiðum. 

Hálka, hálkublettir eða krapi er víða á vegum á Vestfjörðum en flughált í utanverðu Ísafjarðardjúpi. Búið er að opna Hrafnseyrarheiði og verið að hreinsa Dynjandisheiði. Þæfingsfærð er frá Bjarnarfirði og norður í Reykjarfjörð á Ströndum.

Það er að mestu greiðfært á Norðurlandi vestra en hálka er á Siglufjarðarvegi og Öxnadalsheiði. Á Norðausturlandi er hálka eða hálkublettir og krapi á stöku stað.  

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja eða krapi á vegum en þungfært er á Vatnsskarði eystra. Það er að mestu greiðfært með suðausturströndinni en þó eru hálkublettir í Öræfum og frá Skaftafelli að Vík. 

Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert