Deildu um eignarhald á þjóðbúningi

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Austurlands í deilu tveggja kvenna um eignarrétt á íslenskum þjóðbúningi, svonefndum upphlut, og því sem fylgdi honum.

Upphluturinn var í fórum annarrar konunnar sem hafði fengið hann frá móður hinnar með gjafabréfi árið 2007. Hin konan vildi hins vegar meina að hún hafi fengið upphlutinn að gjöf þegar hún var barn að aldri frá móður sinni en falið hinni konunni, sem er uppeldissystir hennar og móðursystir, að varðveita hann þar til hún yrði fullvaxta.

Héraðsdómur taldi að konan sem taldi sig hafa fengið upphlutinn að gjöf sem barn hefði ekki geta fært nægar sönnur fyrir staðhæfingu sinni og sýknaði því móðursysturina af kröfum hennar. Hæstiréttur segir í dómi sínum að ganga verði út frá þeirri reglu að líkur standi almennt til að sá sem hefur lausafjármuni í vörslu sinni og fer með þá eins og þeir tilheyri sér, sé réttur eigandi þeirra.

Ennfremur að óumdeilt sé að móðir móðir konunnar sem taldi sig eiga upphlutinn hefði um árabil farið með vörslu hans og eins að ekki yrði annað ráðið af gjafabréfinu en að hún hafi talið sig eiga hann. Ekki hefði tekist að hnekkja því. Málskostnaður var látinn falla niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert