Býst ekki við því að komast í burtu

Maha gerir ekki ráð fyrir því að komast nokkurn tíma …
Maha gerir ekki ráð fyrir því að komast nokkurn tíma úr flóttamannabúðunum. Mynd/UN women

„Ég er með saumavél í gámnum mínum en vel frekar að koma á griðastað UN Women þar sem ég hitti vinkonur mínar. Annars væri ég alein í gámnum mínum,“ segir hin 48 ára gamla Maha. Hún er ekkja og sjö barna móðir og dvelur nú í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Hún býst ekki við því að komast nokkurn tímann í burtu þaðan.

Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi, heimsótti griðastaði UN Women í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu, og ræddi meðal annars við Maha. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín.

Neyðarsöfnun UN Women á Íslandi er enn í fullum gangi og nú var nýtt myndband herferðarinnar að líta dagsins ljós þar sem Eva María ræðir við Maha, en hún er yfirklæðskeri á griðastöðum UN Women í flóttamannabúðunum. Maha lifði áður friðsælu lífi í Sýrlandi þar sem hún bjó í faðmi fjölskyldunnar í Damascus. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt eru þær fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu. Flestar konur í Zaatari hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini og glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar mæður.

Aðsóknin í griðastaði UN Women er gríðarleg og eru hundruð kvenna á biðlista eftir að komast að. Til að byggja upp griðastaðina þarf aukið fjármagni og því biðla UN Women til almennings um stuðning.

Með því að senda SMS-ið KONUR í 1900 veitir þú sýrlenskum konum á flótta atvinnu, öruggt skjól og nýtt upphaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert