Áfram í varðhaldi grunaður um peningaþvætti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstirétt­ur staðfesti í dag að níg­er­ísk­ur karl­maður skuli áfram sæta gæslu­v­arðhaldi vegna gruns um pen­ingaþvætti. Varnaraðili hafði kært úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá því fyrir helgi en þar segir að manninum sé gert að sæta gæsluvarðhaldi til 14. desember.

Alls hef­ur héraðssak­sókn­ari gefið út ákæru á hend­ur fjór­um vegna máls­ins. Mál nígeríska karlmannsins var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 13. október en saksóknari gaf út ákæru á hendur honum 20. september vegna peningaþvættis í febrúar árið 2016.

Maðurinn er ákærður fyr­ir að hafa skipu­lagt og gefið fyr­ir­mæli um pen­ingaþvætti þegar meðákærðu hafi tekið við 31.600.000 krón­um af ótil­greind­um aðila, geymt fjár­mun­ina á banka­reikn­ing­um, nýtt að hluta, flutt að hluta, sent að hluta til Ítal­íu og milli­fært 20.500.000 krón­ur af um­ræddu fé á banka­reikn­ing fé­lags í Hong Kong.

Þetta hafi verið gert þó vitað hafi verið mátt að um væri að ræða ólög­lega fengið fé, en um hafi verið að ræða fé sem ótil­greind­ur aðili hafi kom­ist yfir með fjár­svik­um í tengsl­um við viðskipti fé­laga í Suður-Kór­eu og víðar.

Í greinagerð héraðssaksóknara segir að ákærði hafi skipulagt og gefið meðákærðu fyrirmæli um peningaþvættið eftir að hann kom til landsins 2. febrúar í fyrra og brotin hafi þannig verið framin að hans undirlagi. 

Ákærði var fram­seld­ur til Íslands frá Ítal­íu og hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi frá 17. ág­úst.

Héraðssaksóknari telji að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að tryggja návist ákærða við meðferð málsins fyrir dómi. Hann eigi eiginkonu og barn sem búi í Ghana og í Nígeríu. Líta verði til þess að hann hafi ekki komið sjálfviljugur til landsins heldur eftir framsal í fylgd lögreglufulltrúa. Þá sé ákærði erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hefur við landið og því sé veruleg hætta á að hann reyni að koma sér undan saksókn gangi hann laus.

Aðalmeðferð í málinu hefst 7. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert