„Verðum að styrkja drenginn“

Samstöðumót í Grindavík.
Samstöðumót í Grindavík. Ljósmynd/Rannveig Jónína Guðmundsdóttir

„Þetta gekk rosalega vel. Okkur langaði til að efla samkenndina hjá krökkunum, fá þá til að hugsa um aðra og láta gott af sér leiða. Það tókst svo sannarlega,“ segir Magnús Már Jakobsson einn af skipuleggjendum samstöðumóts íþróttafélaganna á Suðurnesjum sem lauk í gær. Mótið, sem stóð yfir í nokkra daga, var til styrktar Guðmundi Atla Helgasyni níu ára gömlum dreng sem er með bráðhvítblæði. Guðmundur þarf að fara til Svíþjóðar í frekari meðferð og mergskipti og mun dvelja þar um jólin. 

Keppt var í sundi, fótbolta, körfubolta og skák auk þess voru haldnar sameiginlegar sund- og júdóæfingar hjá íþróttafélögunum.  

Á mótinu voru samskotsbaukar þar sem þátttakendur gátu látið fé af hendi rakna. Einnig var og er fólk hvatt til að leggja inn á styrktarreikning fyrir Guðmund.  

„Það var keppt í skák og ég fylgdist í fyrsta skipti með. Það var mjög skemmtilegt ég horfði á sjö ára stelpu keppa á móti rúmlega áttræðum manni. Það var magnað að finna virðinguna milli kynslóðanna,“ segir Magnús. 

Ekki liggur fyrir hversu mikið safnaðist á mótinu því það á eftir að taka saman upphæðina sem safnaðist í samskotsbaukunum. „Vonandi hefur safnast sem mest og því verður haldið áfram því við þurfum að styrkja drenginn og þessa fjölskyldu,“ segir Magnús. 

Guðmundur Atli Helgason.
Guðmundur Atli Helgason.

Guðmundur greindist fyrst með bráðahvítblæði fyrir tveimur árum þá sjö ára gamall. Við tók sjö mánaða ferli með lyfjagjöfum og veikindum sem Gummi eins og hann er kallaður tæklaði með jákvæðnina að vopni. Þann 3. september, fimmtán mánuðum seinna og Gummi ný orðinn níu ára, endurgreindist hann með bráðahvítblæðið og hefur þegar lokið tveimur lyfjagjöfum. Gummi þarf því að fara til Svíþjóðar í frekari meðferð og mergskipti. Hann hefur því á sinni stuttu ævi tekist á við ýmislegt en 5 ára flutti hann ásamt systur sinni til ömmu sinnar og afa.

Guðmundur er lífsglaður og hjartahlýr drengur með mörg áhugamál. Hann hefur áhuga á fótbolta, sundi, hjólreiðum, skák og Lego. Hann hefur verið í Myllubakkaskóla með einstökum bekkjarfélögum sem hafa stutt hann á ólýsanlegan hátt á samt því að stunda nám hjá grunnskóla Barnaspítalans í öðrum og nú fjórða bekk. Frá þessu greinir Magnús. 

Styrktarreikningur: Guðmundur Atli Helgason,

Kt: 190808-4080, Reikn: 0542-14-40497I.

Meðal annars var keppt í skák á samstöðumótinu. Meðal keppenda …
Meðal annars var keppt í skák á samstöðumótinu. Meðal keppenda í skák var langafi Guðmundar. Ljósmynd/Rannveig Jónína Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert