Fjárhagsáætlun samþykkt í Hafnarfirði

Aukin samvinna sviða með fjölskylduvelferð að leiðarljósi er meðal áhersluefna …
Aukin samvinna sviða með fjölskylduvelferð að leiðarljósi er meðal áhersluefna í nýrri fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var í kvöld. Ljósmynd/Hafnarfjaðarbær

Líðan og velferð barna og unglinga verða í forgrunni í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var í bæjarstjórn í kvöld.

„Áætlunin ber þess skýr merki að umbætur í fjármálum sveitarfélagsins undanfarin ár eru að skila sér til bæjarbúa. Framundan er uppbygging á þjónustu á hinum ýmsu sviðum sveitarfélagsins og er fjölskyldan í fyrirrúmi. Mikil áhersla er á umbætur í leik- og grunnskólum bæjarins, bæði hvað faglegt starf varðar sem og á húsnæði og aðbúnaði nemenda og starfsfólks,“ segir í tilkynningu frá bænum.

Meðal þess sem fram kemur í áætluninni er að álagningarhlutföll fasteignagjalda verða lækkuð á íbúa og fyrirtæki og gjaldskrár hækka almennt ekki.

Skuldahlutfall bæjarins fer áfram lækkandi og fjárfest verður fyrir eigið fé sveitarfélagsins og söluandvirði lóða. Viðhald á eignum bæjarins verður verulega aukið og framkvæmdir verða umfangsmeiri en í langan tíma.

Áhersla á forvarnir, samvinnu og fjölskylduvelferð

Í tilkynningu frá bænum segir að á árinu 2018 verður lögð áhersla á aukna samvinnu fagfólks á fjölskyldu- og fræðslusviði í þágu barna og ungmenna í sveitarfélaginu, með sérstaka áherslu á forvarnir.

Þá er gert ráð fyrir auknum útgjöldum umfram almennar verðlagshækkanir, samtals að fjárhæð um 588 milljónir króna. Um er að ræða meðal annars aukin framlög til leik- og grunnskóla, fjölskylduþjónustu, viðhalds eigna, menningarmála og umhverfisþjónustu.

Áætlað veltufé 3,5 milljarðar króna

Í áætluninni kemur fram að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 742,3 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 156,6 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar eru áætlaðar um 52,4 milljarðar króna í árslok 2018, skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 41,7 milljarðar króna og eigið fé um 10,7 milljarðar króna.

Þá er áætlað veltufé frá rekstri A-hluta um 2,5 milljarðar króna eða 10,3% og samantekið fyrir A- og B-hluta 3,5 milljarðar króna, eða um 13,6% af heildartekjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert