Munar um álið í sprittkertunum

Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson (t.h.) tekur hér við við plakati …
Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson (t.h.) tekur hér við við plakati um átakið af Pétri Blöndal, framkvæmdastjóra Samál, í tengslum við átakið. mbl.is/Hari

Um þrjár milljónir sprittkerta eru brenndar hér á landi árlega, en álbikar utan um þrjú sprittkerti dugar til framleiðslu á einni drykkjardós úr áli. Úr þúsund slíkum bikurum má framleiða eitt reiðhjól að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls. Hrint hefur verið af stokkunum sérstöku endurvinnsluátaki á álinu í sprittkertum.

Átakið mun standa út janúarmánuð og komið hefur verið fyrir sérstökum endurvinnslutunnum fyrir álbikarana á 90 endurvinnslu- og móttökustöðvum um land allt og þá má einnig setja álið í grænu tunnurnar frá Íslenska gámafélaginu og Gámaþjónustunni. Fólk er þó beðið um að fjarlægja vaxið og plötuna með kveiknum úr sprittkertinu, enda skipir máli varðandi allar vörur sem eru endurunnar að þær séu sem hreinlegastar þegar þær fara til endurvinnslu.

Að átakinu standa Sorpa, Endurvinnslan, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Fura, Málmsteypan Hella og Plastiðjan Bjarg ásamt Samáli og Samtökum iðnaðarins og segir Pétur því vera ætlað að vekja almenning til vitundar um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu þess áls sem fellur til í almennum heimilisrekstri og hjá fyrirtækjum.

Sprittkerti í jólakransi. Með endurvinnslu á þremur álbikarum í þessum …
Sprittkerti í jólakransi. Með endurvinnslu á þremur álbikarum í þessum kransi má búa til drykkjardós úr áli. mbl.is/Árni Sæberg

Hugsar heimilisreksturinn í víðara samhengi

„Miðað við kertanotkun á Norðurlöndunum, sem er með því mesta í heiminum, má reikna út að sprittkertanotkun hér á landi telji um þrjár milljónir sprittkerta á ári,“ segir Pétur. „Til að setja það í samhengi þá duga þrjú sprittkerti til að búa til drykkjardós úr áli og þúsund sprittkerti til þess að búa til reiðhjól svo við getum hjólað í vinnuna, þannig að það munar um söfnun á sprittkertum.“

Hann segir vissulega mega skila álbikurunum í málmagáminn hjá Sorpu, en ekki allir hafi áttað sig á því eða mikilvægi þess að endurvinna líka slíka smáhluti.

„Það er reynsla nágrannaþjóða okkar Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Írlands, þar sem ráðist hefur verið í átak af þessum toga að það fær fólk til að kveikja á perunni og það áttar sig þá á að það þarf líka að endurvinna þessa hluti. Fólk fer í kjölfarið að hugsa heimilisreksturinn í víðara samhengi og áttar sig á því að fleira sem fellur til á heimilinu eins og álpappír og álbakkar eru líka úr áli sem má endurvinna.“

Pétur segir muna um endurvinnslu á álinu í þessum vörum þar sem að ál sé búið þeim eiginleikum það það megi endurvinna margoft án þess að það tapi sínum upprunalegum gæðum. 

Þarf 95% minni orku í endurvinnsluna

Hann bendir á að við endurvinnslu áls þurfi líka ekki nema 5% af orkunni sem fór í upprunalegu vinnsluna. „Þannig að þetta dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess skapar það verðmæti fyrir endurvinnslur að fá þennan málm inn til sín.“

Álbikararnir sem safnast í átakinu fara ekki úr landi, heldur fara þeir í framleiðslu hér á landi hjá Málmsteypunni Hellu og segir Pétur margar hugmyndir uppi um hvernig álið verði nýtt.

„Þetta er tilraunaverkefni þannig að við rennum blint í sjóinn, en þetta er bylgjuhreyfing í samfélaginu. Fólk vill endurvinna og gera heiminum gott með því að draga úr sóunn, þannig að ég held að fólk bíði eftir frekari tækifærum til að leggja gott til málanna.“

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir muna um endurvinnslu þeirra álmuna …
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir muna um endurvinnslu þeirra álmuna sem til falla á heimilinu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert