Ferðalagið til Íslands breyttist snögglega

Marika Mazakova liggur enn á Landspítalanum í Fossvogi, þar sem …
Marika Mazakova liggur enn á Landspítalanum í Fossvogi, þar sem hún jafnar sig eftir slysið. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum svo glaðar að vera á Íslandi, tvær stelpur að ferðast saman. Þetta er svo yndislegt land.“

Þetta segir Marika Mazakova, 31 árs slóvakísk kona sem lenti ásamt Ivönku vinkonu sinni í alvarlegu umferðarslysi í grennd við Vík í Mýrdal 16. nóvember síðastliðinn. Vinkonurnar lentu þá í hörðum árekstri við snjóruðningstæki, eftir að bílaleigubíll þeirra rann skyndilega yfir á öfugan vegarhelming.

Marika, sem býr í Prag í Tékklandi og starfar við almannatengsl fyrir þarlenda sjónvarpsstöð, dvelur enn á Landspítalanum í Fossvogi. Læknar hafa sagt henni að það sé hálfgert kraftaverk að þær vinkonur hafi lifað slysið af. Marika slasaðist illa á hægri fæti og mjaðmagrindarbrotnaði, en Ivanka hlaut höfuðhögg, braut bein í andliti og handleggsbrotnaði.

„Ég er búin að heyra það svo oft að það sé kraftaverk að ég sé á lífi, að mér líður smá eins og ég hafi endurfæðst hérna,“ segir Marika.

Bíllinn rann yfir á öfugan helming

Vinkonurnar höfðu verið á landinu í rúman sólarhring þegar slysið varð. Fyrsta daginn nýttu þær í að skoða Reykjavík, en síðan fóru þær á bílaleigubíl út úr borginni. „Við keyrðum með suðurströndinni, fórum og kíktum á Skógafoss og síðan átti slysið sér stað þegar við vorum að keyra í áttina að Vík,“ segir Marika og rödd hennar brestur er hún rifjar upp atburðarásina.

„Það var snjókoma, smá snjór á veginum og skyndilega byrjaði bíllinn að rása til. Við vorum bara að keyra og allt í einu rann bíllinn yfir á hinn vegarhelminginn, þar sem þessi stóri snjómokstursbíll kom á móti okkur. Á því augnabliki áttaði ég mig á því að árekstur væri óumflýjanlegur. Ég leit á vinkonu mína og svo varð allt svart.“

Snjóplógurinn gekk inn í bílaleigubíl kvennanna við áreksturinn og mildi …
Snjóplógurinn gekk inn í bílaleigubíl kvennanna við áreksturinn og mildi þykir að þær hafi sloppið lifandi. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Fegin að finna að hún hafði mátt

Marika segist ekki hafa rankað við sér á ný fyrr en nokkru seinna og þá voru viðbragðsaðilar komnir til aðstoðar, en lögregla var komin á slysstað um tíu mínútum eftir áreksturinn.

„Ég heyrði rödd vinkonu minnar, svo ég vissi að hún væri á lífi, og þá varð ég fegin. Það voru einhverjir komnir til okkar og ég áttaði mig á því að fólkið vildi flytja mig úr bílnum. Ég var lögð á götuna og þar sem ég lá vildi ég athuga hvort líkaminn væri í lagi. Ég hreyfði hendur og fætur og var afar létt þegar ég fann að útlimirnir virkuðu. En ég fann líka að það væri eitthvað brotið.“

Hún segist muna eftir þyrluferðinni til Reykjavíkur, en þegar þangað var komið fór Marika rakleiðis í sjö klukkustunda aðgerð á Landspítalanum. Hún segist þess fullviss að englar hafi vakað yfir sér og því hafi ekki farið verr.

Dró fæturna upp í sætið

Ökumaður snjóruðningstækisins sagði Mariku að hann hefði séð hana draga fæturna örsnöggt upp af gólfinu í aðdraganda árekstursins. „Hann segist hafa séð mig búa mig undir áreksturinn með því að toga lappirnar skyndilega upp í sætið og búa eiginlega til kúlu úr mér. Læknirinn minn sagði mér að það væri líklega ástæðan fyrir því að ég er enn á lífi, að lappirnar skyldu ekki vera fastar á gólfinu.“

Einnig sé alveg ljóst að þær vinkonur væru ekki til frásagnar ef þær hefðu ekki verið með bílbelti, en Marika segir að hún noti alltaf beltið og sé alltaf að minna annað fólk á að nota bílbelti, eftir að vinur hennar lést í bílslysi.

Hún segir það mikið áfall að lenda skyndilega í alvarlegu slysi sem þessu, en fyrst hún „þurfti“ að lenda í svona slysi á annað borð er hún fegin að það gerðist á Íslandi.

„Ég vil þakka öllum læknunum og hjúkrunarfræðingunum sem hafa annast mig. Spítalinn er mjög góður. Í raun er ég heppin að hafa lent í svona slysi hérna, af því að spítalinn er svo góður. Það er ekki sjálfgefið,“ segir Marika.

Marika lýsir því fyrir blaðamanni hvernig hún hnipraði sig saman …
Marika lýsir því fyrir blaðamanni hvernig hún hnipraði sig saman í sæti sínu er ljóst var að árekstur var óumflýjanlegur. Árni Sæberg

Heldur heim á miðvikudag

Annars vill Marika ekki vera að barma sér um of yfir því að hafa lent í þessu slysi. Hún segist alltaf hafa verið sterk og jákvæð manneskja og það viðhorf muni hjálpa sér í endurhæfingunni framundan.

„Ég vil ekki spyrja mig of mikið af hverju þetta kom fyrir mig. Þetta bara gerðist og ég á eftir að ná mér. Ég mun geta gengið og haldið áfram að lifa mínu lífi. Það er frábært. Þetta var þó mikið áfall og ég veit að það verður erfitt fyrir mig að geta ekki gengið eða tekið þátt í lífinu eins og ég geri venjulega næstu mánuði,“ en læknar reikna með því að Marika verði farin að ganga nokkuð eðlilega eftir 4-6 mánuði.

Foreldrar Mariku og kærasti, Jan Gajdos, hafa komið og heimsótt hana eftir slysið. Nú er Jan kominn aftur til hennar og mun fylgja henni heim til Prag á miðvikudag.

Marika segist staðráðin í að koma aftur til Íslands síðar, en áhugi hennar á því að heimsækja landið kviknaði vegna aðdáunar hennar á Björk, sem er einn af hennar uppáhaldslistamönnum.

„Ég mun koma aftur. Ekki að vetri til samt, heldur pottþétt að sumarlagi. Kannski ekki á næsta ári en mögulega þarnæsta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert