Veður með allra órólegasta móti

AFP

Hörkufrost var í nótt á Suður- og Vesturlandi enda léttskýjað en síðdegis er útlit fyrir vaxandi suðaustanátt og það þykknar upp. Veður verður með allra órólegasta móti í Evrópu í dag að sögn veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Nærri miðnætti verður kominn allhvass eða hvass vindur á Suður- og Vesturlandi og það snjóar eitthvað í fyrstu, en færir sig síðan yfir í rigningu eða slyddu á láglendi með hita 1 til 5 stig. 

Snjókarl í Frankfurt í gær.
Snjókarl í Frankfurt í gær. AFP

„Á Norður- og Austurlandi léttir til og verður bjart og kalt í dag, en þar fer frostið að minnka í nótt þegar sunnanáttin nær þangað norður eftir. 

Það dregur úr vindinum strax á morgun og eftir hádegi er útlit fyrir meinlitla suðaustanátt. Úrkoman á morgun verður ýmist skúrir eða él. Það eru engin alvöruhlýindi með sunnanáttinni að þessu sinni og hitinn drífur ekki nægilega yfir frostmarkið til að hægt sé að útiloka að eitthvað af úrkomunni verði í föstu formi á morgun. 

Veður verður með allra órólegasta móti í Evrópu í dag. Djúp lægð (um 960 mb) er nú í morgunsárið að taka land í Norðvestur-Frakklandi og stefnir hún til austurs inn á meginlandið. Búast má við að óveður sem fylgir þessari lægð muni valda tjóni og samfélagslegri röskun í mörgum löndum Evrópu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Víða hægur vindur, léttskýjað og talsvert frost. Vaxandi suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi síðdegis, þykknar upp og dregur úr frosti. Suðaustan 13-20 m/s kringum miðnætti með snjókomu í fyrstu, síðan rigningu eða slyddu á láglendi og hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, úrkomulítið og minnkandi frost. Dregur aftur úr vindi á morgun, suðaustan 5-13 síðdegis og skúrir eða él, en rigning á Suðausturlandi.

Á þriðjudag:

Suðaustan 10-18 m/s og rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla. Hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi, úrkomulítið og minnkandi frost. Suðaustan 5-13 og skúrir eða él undir kvöld, en rigning SA-lands. Hiti kringum frostmark. 

Á miðvikudag:
Snýst í norðaustan 8-13 m/s. Slydda eða rigning með köflum og snjókoma til landsins, en styttir upp á Suður- og Vesturlandi. Víða frostlaust við ströndina, annars vægt frost. 

Á fimmtudag:
Norðan 8-13 og dálítil él, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig. 

Á föstudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og bjartviðri, en él við norðausturströndina. Frost 2 til 12 stig. 

Á laugardag:
Suðaustanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu, en úrkomulítið norðaustan til á landinu. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag:
Líkur á að snúist til norðanáttar með snjókomu eða slyddu, en styttir upp á sunnanverðu landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert