Dæmt til að greiða uppsagnarfrestinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt í málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt í málinu. mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Myllusetur til að greiða fyrrverandi blaðakonu á Viðskiptablaðinu, sem hafði áunnið sér rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests, eina og hálfa milljón króna. Myllusetur hélt því fram að konan hefði ekki verið fastráðin og ætti þ.a.l. ekki rétt á greiðslunni. Héraðsdómur féllst hins vegar á kröfu blaðakonunnar.

Konan hóf í september 2014 að skrifa greinar í Viðskiptablaðið og fylgirit þess, s.s. „Framúrskarandi fyrirtæki“, „Eftir vinnu“ og „Áhrifakonur“. Til að byrja með var um svonefnda lausamennsku að ræða og gerði hún þá Myllusetri reikninga fyrir þá vinnu sem hún leysti af hendi eins og hún væri verktaki. Konan hélt því fram að breyting hafi orðið á þessu í júní 2015 þegar henni hafi verið falin umsjón með einu fylgiriti Viðskiptablaðsins, „Eftir vinnu“, og hún fékk aðstöðu á ritstjórnarskrifstofu stefnda. Frá þeim tíma taldi hún sig hafa verið starfsmann fyrirtækisins. Ekki var þó gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana.

Í málinu var enginn ágreiningur um að hún hafi verið ráðin í starf blaðamanns hjá Myllusetri þegar hún varð óvinnufær í nóvember 2015 vegna veikinda á meðgöngu. Naut hún á þeim tíma starfstengdra réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Í dómnum kemur fram, að hvorki verði ráðið af skýrslu þáverandi framkvæmdastjóra Mylluseturs né skýrslu þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins fyrir dómi að konan hafi sagt upp starfi sínu hjá fyrirtækinu þegar hún tilkynnti um þungunina eða lét vita um veikindaforföllin.

Þá sé ágreiningslaust að Myllusetur batt ekki enda á ráðningu hennar við það tækifæri. Telst því ósannað að ráðningarsambandi aðila hafi verið slitið áður en fæðingarorlof hennar hófst í janúar 2016. Breytir engu í því sambandi þó að hún kunni að hafa átt takmarkaðan rétt til veikindalauna úr hendi fyrirtækisins fram að fæðingu barna sinna með tilliti til þess hvenær hún fór á launaskrá.

Héraðsdómur segir, að konan hafi ekki glatað starfstengdum réttindum sínum við það að mæta ekki af sjálfsdáðum til starfa við lok fæðingarorlofs í nóvember 2016. Í því sambandi beri m.a. að líta til þess að hún leitaði í júlí 2016 til þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, sem var hennar næsti yfirmaður, með fyrirspurn er ljóslega tengdist starfinu án þess að fá svar.

Tekið er fram, að þær greiðslur, sem gögn málsins beri með sér að ritstjóri Viðskiptablaðsins hafi lofað konunni á fundi í mars 2017, um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti auk orlofs, hafi verið í samræmi við áunnin starfstengd réttindi hennar. Hún fari einungis fram á að við það loforð verði staðið.

„Dómurinn fær ekki séð að stefnandi hafi glatað rétti sínum að þessu leyti fyrir tómlæti. Í ljósi þess sem rakið hefur verið ber að fallast á framangreinda kröfu stefnanda. Enginn ágreiningur er um tölulegan útreikning á höfuðstól hennar og ber að taka þá kröfu til greina eins og hún er fram sett.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert