Búast má við hláku og vatnavöxtum

Búast má við talsverðri hláku á landinu næsta einn og hálfan sólarhringinn. Sunnan- og suðaustanlands verður talsverð rigning í nótt og aftur mikil rigning annað kvöld. Þar fellur úrkoman að miklu leyti á frostkalda jörð sem getur valdið því að vatn safnast fyrir, t.d. í dældum í landslagi og á vegum og búast má við talsverðum vatnavöxtum í ám og lækjum á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Vestanlands verður hlákan staðbundnari og ber einkum að nefna norðanvert Snæfellsnes og sunnanverða Vestfirði þar sem gengur í hvassviðri og talsverða rigningu í nótt. Annað kvöld mun einnig rigna talsvert þar og saman veldur þetta auknum vatnavöxtum og afrennsli. Norðvestanlands er það einkum hvöss sunnanátt með skarpri hlýnun í nótt sem veldur hláku. Í öðrum landshlutum hlýnar einnig og ekki útilokað að hláku muni gæta þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert