Álag á bráðadeild Landspítala vegna hálkuslysa

Fólk á öllum aldri hefur verið að detta í hálkunni, …
Fólk á öllum aldri hefur verið að detta í hálkunni, þó að eldra fólki sé hættara við að brotna. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Mikið álag hefur verið á starfsfólki bráðadeilda Landspítalans undanfarna daga vegna hálku. Fljúgandi hálka er einnig á Akureyri en þar er ástandið engu að síður betra. Tveir voru þó fluttir á slysadeildina á Akureyri í morgun með áverka á höfði eftir hálkuslys. 

Að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis á bráðadeild Landspítalans hafa komur á þann hluta bráðadeildar sem sinnir áverkum á borð við hálkuslys verið töluvert yfir meðallagi undanfarna daga. „Það komu 117 á laugardeginum, 127 á sunnudeginum og það sem af er degi í dag hafa komið 73,“ sagði Jón Magnús í samtali við mbl.is um tvöleytið í dag. „Þetta er talsvert yfir meðaltali og mikið af þessu hafa verið slys sem eru til komin vegna hálkunnar.“

Álag á starfsfólki bráðadeildar sé því búið að vera mikið undanfarið. „Þetta er þó ekki mikið mikið af umferðaróhöppum tengdum hálkunni, en það hefur verið mikið um föll og byltur,“ segir hann.

Meiðslin eru allt frá beinbrotum, mari, brákuðum beinum og yfir í skurð á höfði. „Þetta er fólk á öllum aldri sem er að detta, en eldra fólkinu er hættara við að brotna.“

Göturnar eins og bobsleðabrautir

Mikil hálka er einnig á Akureyri en hálkuslysin eru færri enn sem komið er.

„Það er fljúgandi hálka í bænum, en stundum verður það til þess að fólk passar sig betur sérstaklega ef að það sér hálkuna,“ segir Pálmi Óskarsson forstöðulæknir á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri. „Sumar göturnar eru eins og bobsleðabrautir,“ bætir hann við. Hann segir hálkuslys í morgun eða um helgina þó ekki áberandi mörg og engin þeirra hafi verið alvarleg.

„Það hefur eitthvað komið inn undanfarna daga, en þetta hefur þó gengið alveg þokkalega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert