Ertu jólabarn?

Það er fátt meira í anda jólanna en að styðja þau sem eiga undir högg að sækja. Því að andi jólanna birtist okkur einmitt í því viðkvæmasta og varnarlausasta sem við þekkjum: nýfæddu barni, skrifar Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju.
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu jólabarn?

Ég fór að hugleiða þennan titil þegar ég las jólablöð dagblaðanna, skemmtilegt sambland af auglýsingum og uppskriftum í bland við viðtöl við fólk sem sumt byrjaði að útbúa jólin í ágúst og fær þannig umsvifalaust titilinn „jólabarn“.

Ég er líka jólabarn. Ég hlakka til aðventunnar og jólanna. Hlakka til þegar grámi skammdegisins víkur fyrir marglitum ljósum, þegar aðventu- og jólatónlist fer að óma og þegar við verðum öll svolítið meirari en áður og gefum á ýmsan hátt til góðra mála.

Ég er jólabarn.

Ég skreyti lítið, baka lítið, hef jólagjafir og mataraðföng í hófi. Fagna því hins vegar leynt og ljóst hve margir hafa áhuga á að skreyta og baka og les af áhuga margar góðar uppskriftir og hugmyndir sem finna má í öllum blöðum á þessum tíma. Stundum hef ég gert eitthvað af þessu, hvort heldur piparkökuhús eða paté. Dreymt um að steypa kerti. En stundum geri ég ekkert. Ég er sumsé jólabarn sem nýt þess að sjá tilbreytinguna á aðventunni en sé mig engan vegin knúna til að taka þátt nema mig langi sérstaklega til þess. Finnst tónleikar það hátíðlegasta sem ég sæki, fyrir utan helgihaldið sjálft um aðventu og jól. Ég er að vísu svo heppin að starfa í kirkju og fæ því að njóta aðventu- og jólatónlistar alla sunnudaga og oft í miðri viku líka.

Vinkona mín sagðist ekkert finna fyrir jólunum. Einhver sem hafði heyrt það fór að segja henni að fara heim og kveikja á kerti og setja jólatónlist á. Þá myndi hún finna réttu stemninguna.  Það var eins og hún yrði að finna fyrir því að jólin væru að koma. Hún bókstaflega yrði að vera í jólaskapi. Yrði að vera í jólagír eða jólastuði, eins og þetta ástand er stundum kallað í fjölmiðlum.

Það er frábært hve margir leggja sig fram um aðventu við að undirbúa jólin á ýmsan hátt, með ljósum, skrauti og mat. En jólin sem fagnaðar- og fjölskylduhátíð eru ekki veruleiki allra. Þau eru nefnilega mörg sem kvíða jólunum af ýmsum ástæðum. Ef til vill voru bernskujólin ekki góð, kannski eru slæmar minningar tengdar jólunum, ef til vill, erfiðar fjölskylduaðstæður, fátækt, veikindi, einsemd eða andlát ástvinar. Það eru ekki allir í jólagír eða jólastuði. Og það er allt í lagi.

--

Eitt af mörgum jólakvæðum Jóhannesar úr Kötlum heitir Jólabarnið. Það hefst á orðunum

Sko hvernig ljósin ljóma

á litlu kertunum þínum.

Þau bera hátíð í bæinn

með björtu geislunum sínum.

Kvæðið byrjar inni í stofu,  – þar er lýsing á jólagleði, ljósum og pökkum.

Þú brýtur upp bögglana þína

þér byrtast ljómandi sýnir.

Og allir vilja nú vera

vinir og bræður þínir.

En eftir gleði og frið í stofunni verða skil í kvæðinu:

Þú flýtir þér út í fjárhús

þér finnst nú óþarft að hræðast

Þar grætur yndislegt ungbarn

sem áðan var þar að fæðast.

Við höfum fært okkur úr stofunni yfir í fjárhús, við lifum okkur inn í söguna sem er hluti af jólahaldinu og þá kemur þetta erindi:

Þess foreldrar feimin bíða

í fátækt og miklum vanda

þau bíða eftir betra skýli

barni sínu til handa.

Sagan sem við eigum til í ótal útfærslum sem friðsæl glansmynd af fallega búnu fólki í snyrtilegu fjárhúsi er þrátt fyrir allt saga um fæðingu fátæks barns – og henni tengd sagan um það að foreldrarnir þurftu að flýja, að Jesúbarnið varð flóttamaður fyrstu ár ævi sinnar.

Það er fátt meira í anda jólanna en að styðja þau sem eiga undir högg að sækja. Því að andi jólanna birtist okkur einmitt í því viðkvæmasta og varnarlausasta sem við þekkjum: nýfæddu barni.

Jesús var einmitt barn fátækra foreldra í hernumdu landi þar sem talsverð spenna ríkti milli almúga og yfirvalds; boðskapur hinna kristnu jóla birtist í helgisögu um fæðingu barns sem kveikti von um betra líf. Boðskapur jólanna er að Guð leitar þín og að Guð mæti okkur í því smáa og varnarlausa.

Þessi boðskapur er viðkvæmur. Svo viðkvæmur að hann getur auðveldlega týnst í öllum látunum við að skapa stemningu og jólaskap. En hann er allra.

Þá kemur þú með þín kerti

og kveikir við jötuna lágu.

Og réttir fram hreina og hlýja,

höndina þína smáu.

Við getum öll verið jólabörn í þeim skilningi að við tökum við boðskap mannsins sem fæddist fyrir rúmum 2000 árum. Að við þiggjum að halda jól í félagsskap hans hvað sem okkur annars finnst um jólastússið og hvernig sem aðstæður eru. Þau jól standa öllum til boða.

Það geta allir verið jólabarn.

Gleðileg jól,

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir

Jólastund í Neskirkju.
Jólastund í Neskirkju. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert