Húsfyllir í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu

Um 1.200 kirkjugestir voru við aftansöng í Hallgrímskirkju.
Um 1.200 kirkjugestir voru við aftansöng í Hallgrímskirkju. mbl.is/Ómar

Óvenju fjölmennt var í messum á höfuðborgarsvæðinu í gær, en víða voru þrjár messur haldnar yfir daginn. Flestir sóttu aftansöng klukkan sex, en miðnæturmessur klukkan hálftólf að kvöldi til hafa einnig notið vinsælda auk barna- og fjölskyldumessa síðdegis. 

Séra Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, segir kirkjusókn yfir hátíðarnar hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár, en veðurfar og aðrir breytilegir þættir leiki þó einnig hlutverk frá ári til árs. 

Húsfyllir var í öllum kirkjum prófastsdæmisins í gær og sem dæmi nefnir Helga Soffía að í Hallgrímskirkju hafi verið um 1.200 og 900 gestir í aftansöng og miðnæturmessu. Minnstu kirkjurnar rúma síðan um 300 gesti.

Kirkjugestir um hátíðarnar eru ungir sem aldnir.
Kirkjugestir um hátíðarnar eru ungir sem aldnir.

Aðspurð segir Helga Soffía aukna kirkjusókn mögulega skýrast af jákvæðari viðhorfum gagnvart kirkjunni síðustu ár og auknum vilja safnaðarbarna til að iðka trú sína. Kirkjugestir um jólin eru að hennar sögn á öllum aldri. „Heilu fjölskyldurnar koma saman í þessum messum. Í aftansöngnum t.d. koma saman eldri fjölskyldumeðlimir, börn og unglingar, miðaldra fólk og þeir sem eru nýbyrjaðir að búa,“ segir hún.

Smærri samkomur ekki síður mikilvægar

Séra Helga Soffía nefnir að undir prófastsdæmið falli einnig guðsþjónusta Íslendinga í Osló, Gautaborg og Kaupmannahöfn. Á þessum stöðum séu messur yfir hátíðarnar vel sóttar, ekki síst af samfélagslegum ástæðum.

Það er svo gleðilegt að sjá hve mikið Íslendingar sem búa á þessum stöðum sækja kirkjuna. Þeir sækja hana auðvitað af trúarlegum ástæðum, en líka af samfélagslegum ástæðum. Þarna er oft mikið samasemmerki milli söfnuða og Íslendingafélaga. Á þessum stöðum er kirkjustarfið einstaklega blómlegt,“ segir hún.

Fjöldi smærri samkoma fer einnig fram á aðfangadag að sögn Helgu Soffíu, en hún nefnir þannig guðsþjónustu á heilbrigðisstofnunum, elli- og hjúkrunarheimilum og í fangelsum. Þessar guðsþjónustur séu ríkur þáttur í þjónustu kirkjunnar. 

„Þarna hefur víða verið mikið helgihald þar sem allir koma saman. Prestur kemur í fullum skrúða ásamt organista, söngfólki o.s.frv. Þetta fer lágt, en þetta helgihald er auður kirkjunnar; vel menntað og faglegt fólk sem við höfum til að sinna þessum störfum. Það leggjast allir á eitt,“ segir Helga Soffía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert