Hóp um endurskoðun búvörusamninga slitið

Niðurgreiðsla mjólkur er meðal þess sem kveðið er á um …
Niðurgreiðsla mjólkur er meðal þess sem kveðið er á um í búvörusamningum. Þorkell Þorkelsson

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur leyst upp samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Þetta herma öruggar heimildir mbl.is. 

Óvíst er hvort ráðherra hyggst skipa upp á nýtt í hópinn eða hvort hann verði lagður niður en ætla má af þessu að ekki standi til að ráðast í umfangsmikla endurskoðun á búvörusamningnum þegar færi gefst, árið 2019. Er búvörusamninganna enda ekki getið í stuttum landbúnaðarkafla stjórnarsáttmálans. Í samtali við mbl.is sagðist Kristján Þór vera að vinna að málinu en vildi ekki staðfesta að hópurinn hefði verið leystur upp.

130 milljörðum úthlutað með 19 atkvæðum

Búvörusamningar voru samþykktir á Alþingi á haustdögum 2016 með 19 atkvæðum flestra þingmanna Framsóknarflokksins og nokkurra sjálfstæðismanna gegn 7 atkvæðum þingflokks Bjartrar framtíðar og Sigríðar Á. Andersen. Meirihluti þingmanna greiddi hins vegar ekki atkvæði.

Samningarnir gilda til tíu ára og binda því hendur ríkissjóðs til fjárlagagerðar næsta áratuginn. Heildarútgjöld vegna samninganna, sem eru verðtryggðir, eru um 13-14 milljarðar króna á ári. Samningarnir kveða á um möguleikann á endurskoðun að þremur árum liðnum, þ.e. árið 2019, en sú endurskoðun er háð samþykki Bændasamtakanna. 

Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, skipaði upphaflega samráðshóp um endurskoðun í nóvember 2016 stuttu áður en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lét af embætti.

Hugðist rétta hlut neytenda

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem tók við sem landbúnaðarráðherra í upphafi árs 2017, lét það verða sitt fyrsta verk að endurskipa í hópinn. Skipaði Þorgerður meðal annars Brynhildi Pétursdóttur, fyrrverandi alþingismann og starfsmann Neytendasamtakanna, í stað Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns VG. Þá fékk Félag atvinnurekenda einn fulltrúa. Bændasamtökin voru eftir sem áður atkvæðamest hagsmunasamtaka með þrjá fulltrúa í nefndinni.

Kristján Þór tekur við lyklavöldum í landbúnaðarráðuneytinu úr höndum Þorgerðar …
Kristján Þór tekur við lyklavöldum í landbúnaðarráðuneytinu úr höndum Þorgerðar Katrínar. Eggert Jóhannesson

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sagði að með breytingum á skipan samráðshópsins ætti að auka hlut umhverfis- og neytendasjónarmiða við endurskoðun búvörusamninganna.

Í hópnum sátu:

Svanfríður Jónasdóttir, formaður (landbúnaðarráðherra)
Brynhildur Pétursdóttir (landbúnaðarráðherra)
Elín Margrét Stefánsdóttir (landbúnaðarráðherra)
Jóna Björg Hlöðversdóttir (landbúnaðarráðherra)
Þórunn Pétursdóttir (umhverfisráðherra)
Páll Rúnar Mikael Kristjánsson (Félag atvinnurekenda)
Róbert Farestveit (Alþýðusamband Íslands)
Ólafur Arnarsson (Neytendasamtökin)
Andrés Magnússon (Samtök atvinnulífsins)
Sindri Sigurgeirsson (Bændasamtök Íslands)
Björgvin Jón Bjarnason (Bændasamtök Íslands)
Elín Heiða Valsdóttir (Bændasamtök Íslands)
Helga Jónsdóttir (Bandalag starfsmanna ríkis og bæja)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert