Hleðslustöðvum fjölgar á Austurlandi

Hlaða fyrir rafbílaeigendur var tekin í notkun á Freysnesi í …
Hlaða fyrir rafbílaeigendur var tekin í notkun á Freysnesi í Öræfum í dag. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur voru teknar í notkun í dag á Austurlandi. Hlöðurnar, eða hraðhleðslustöðvarnar, eru á vegum Orku náttúrunnar og eru staðsettar við þjónustustöð N1 á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðslna.

Í tilkynningu frá Orku náttúrunnar kemur fram að á Egilsstöðum hlóð Stefán Sigurðsson rafbílaeigandi fyrstur manna bílinn sinn að viðstöddum þeim Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON, og Sigrúnu Hólm Þórleifsdóttur, stöðvarstjóra N1 á Egilsstöðum.

Sigrún Hólm Þórleifsdóttir stöðvarstjóra N1 á Egilsstöðum og Bjarni Már …
Sigrún Hólm Þórleifsdóttir stöðvarstjóra N1 á Egilsstöðum og Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON á Egilsstöðum í dag. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Austurland kjörið fyrir rafbíla

Bjarni Már segir Austurland vera kjörið fyrir rafbíla. „Vegalengdir milli staða eru þannig að þessi hlaða okkar á Egilsstöðum, sem er mjög miðsvæðis, getur þjónað hverjum þeim sem er að skreppa á milli byggðanna í fjórðungnum. Nýju Norðfjarðargöngin skipta líka miklu máli,“ er haft eftir Bjarna Má.

Undirbúningur vegna nýrrar hlöðu ON á Stöðvarfirði sé langt kominn og á næsta ári verður hringveginum lokað með hlöðum á leiðinni milli Austurlands og Norðurlands og við Hornafjörð.

Í desember hafa alls fjórar hlöður bæst við net innviða sem ON hefur byggt upp til að þjóna rafbílaeigendum. Auk þeirra tveggja sem opnaðar voru í dag, voru hlöður á Djúpavogi og við Jökulsárlón teknar í notkun fyrr í mánuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert