Kostnaður gæti orðið 21 milljarður

Svona gæti svæðið ofan Miklubrautar litið út.
Svona gæti svæðið ofan Miklubrautar litið út. Mynd/Reykjavíkurborg

Fram kom á íbúafundi á Kjarvalsstöðum í kvöld, með íbúum í Norður­mýri, Holtum, Hlíðum, við Öskju­hlíð og við Hlemm í Reykjavík, að hugmyndir um að setja Miklubrautina í stokk myndu samkvæmt áætlunum kostar um 21 milljarð króna.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, sagði að frummat hefði verið gert á þróunarmöguleikum og rifjaði upp að samþykkt hefði verið í borgarráði á síðasta ári að kanna hvort fýsilegt væri að setja meginstraum umferðar á Miklubraut í stokk. 


Verkefninu væri ætlað að svara því hvort svo væri út frá fjárhagslegum, umferðarlegum og umhverfislegum forsendum. Næsta skref væri að hefja viðræður við ríkið um mögulega framkvæmd og reyna að fá það að borðinu en áður hefði verið talið rétt að ræða við íbúana.

Dagur benti á að Miklabraut, á milli Snorrabrautar og Háaleitisbrautar, lægi í gegnum hverfi með um 17 þúsund íbúa. Með Miklubraut í stokki væri mögulegt að tengja þessi hverfi betur saman en raunin væri í dag og skapa gott umhverfi á yfirborðinu. 

Miklabraut í stokk yki enn fremur þróunar- og uppbyggingarmöguleika á stóru svæði. Svæðið sem yrði fyrir ofan Miklubraut gæti umbreyst í vistlega borgargötu. Tækifæri væru auk þess til þess að þróa nýja áherslupunkta í kringum borgarlínu og nýja uppbyggingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert