„Gagnrýni á gagnrýni um gagnrýni“

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hér er komin gagnrýni á gagnrýni um gagnrýni og best að ég bæti um betur og gagnrýni þá gagnrýni á gagnrýnina um gagnrýnina,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag þar sem hann brást við fyrirspurn sem beint var að honum frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata.

Björn Leví rifjaði upp grein eftir Kolbein þar sem sá síðarnefndi gerði að umtalsefni það sem hann nefndi gamaldags átakastjórnmál. Þar hafi einnig verið gagnrýnd ummæli um meint vinstri-svik VG og hvatt til betri vinnubragða á Alþingi. Vildi Björn hins vegar meina að skrif Kolbeins og gamaldags átakapóltík væri dæmi um slíka pólitík.

Lauk Björn ræðu sinni á vangaveltum um það hver bæri ábyrgð þegar kæmi að bættum vinnubrögðum, sá sem gagnrýndi eða sá gagnrýndi: „Hver ber ábyrgð á því að stunda betri vinnubrögð? Sá sem er í hlutverki gagnrýnanda eða sá gagnrýndi? Þó að gagnrýnin sé kannski ómálefnaleg, verður svarið samt ekki að vera málefnalegt?“

Kolbeinn tók sem dæmi um gamaldags átakastjórnmál þegar VG væri gagnrýnd fyrir að svik vegna útgjaldaaukningar.

„Það að tala um það sem svik þegar Vinstri græn lofa 40–50 milljarða útgjaldaaukningu á öllu kjörtímabilinu fyrir síðustu kosningar og tekst að auka útgjöldin á einum mánuði um 19 milljarða, sem er allt upp í 47,5% af loforðinu fyrir allt kjörtímabilið, finnst mér einfaldlega gamaldags átakapólitík þar sem fólk ræðir í raun ekki hlutina á sanngjarnan máta heldur reynir að komast inn í fyrirsagnir með upphrópunum. Það er það sem ég kalla gamla átakapólitík.“ Hann bætti síðan við:

„Við bætum ekki né breytum vinnubrögðum á Alþingi fyrr en við tökum öll höndum saman, fyrr en við erum öll tilbúin til að setjast niður og ræða hvernig við ætlum að gera hlutina. Sjálfur ber ég mikla von í brjósti. Ég mun í það minnsta rétta út höndina og ég vona að fólk geti tekið höndum saman til að bæta vinnubrögðin á Alþingi og í stjórnmálum almennt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert