„Eins og að vega að lóunni“

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson. mbl.is/Hari

„Það er óskiljanlegt hvað atvinnurekendur eru lélegir í því að berjast fyrir stöðugum gjaldmiðli,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun.

Hann sagði atvinnurekendur telja að ekki sé hægt að hækka laun og sveiflur krónunnar leiki mörg fyrirtæki grátt. Minntist hann á uppsagnir prentsmiðjunnar Odda í því samhengi.

Ágúst Ólafur kvaðst oft hafa furðað sig á málflutningi fjármála- og efnahagsráðherra „þar sem þessi skelfilegi gjaldmiðill sem krónan er er varinn“.

Hann spurði Bjarna Benediktsson hvort honum finnist réttlætanlegt að íslenskur almenningur og þorri fyrirtækja þurfi að búa við krónuna á meðan stórfyrirtæki og auðmenn þurfi þess ekki, heldur geti stuðst við evruna.

Einnig spurði hann hvort ráðherra telji núna vera ástæðu til að hefja á ný umræður um nýjan gjaldmiðil.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Laun hækkað um í kringum 40%

Bjarni sagði laun á Íslandi hafa hækkað á síðustu 4 til 5 árum um um það bil 40% og að kaupmáttur hafi vaxið langt umfram það. Þess vegna sé ekki nema von að komið sé að þeim tímapunkti að erfitt sé að halda áfram á sama hraða.

Hann benti á að sterk króna hafi átt þátt í mikilli fjölgun ferðamanna hérlendis og sagði einnig að verðbólga hafi verið lítil fjögur ár í röð. Raunvextir húsnæðislána hafi líklega aldrei verið lægri.

Eins og að vega að lóunni

Ágúst Ólafur svaraði þá: „Hvað þarf til að hæstvirtur ráðherra sjái að kostnaður vegna krónunnar er að sliga íslensk heimili og fyrirtæki?“

Hann bætti við: „Krónan er fyrir auðmenn en ekki almenning. Það er eins og maður sé að vega að lóunni þegar maður efast um gildi krónunnar.“

Bjarni sagði þingmanninn vaða í þeirri villu að lífsgæði væru mæld í stöðugleika gjaldmiðils.

Ísland væri fremst í flokki þegar alþjóðlegir mælikvarðar séu skoðaðir um hvernig gengur að tryggja góð lífskjör á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert