Reiðubúin að hækka atvinnuleysisbætur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld hafa meðal annars lýst sig reiðubúin til að hækka hámarksfjárhæð mánaðarlegra greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa án þess að samtímis verði hreyft við því gjaldi sem greitt er til sjóðsins í tengslum við samtal þeirra við aðila vinnumarkaðarins.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhenti á fundi í dag með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands. Hámarksgreiðsla er í dag 385 þúsund krónur á mánuði vegna launamissis í allt að þrjá mánuði auk tryggingar á greiðslu orlofs. Hámarksgreiðsla á mánuði verður 633 þúsund krónur frá 1. júlí.

Stjórnvöld hyggjast enn fremur hækka atvinnuleysisbætur og er miðað við að þær verði 90% af dagvinnutekjutryggingu frá 1. maí. Þá verði hugað að mögulegri styttingu bótatímabilsins í 24 mánuði þannig að það verði sambærilegt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Starfshópur um málið skilar niðurstöðum í haust.

Dregið úr skattbyrði tekjulægri hópa 

Enn fremur verður hafin endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á að draga úr skattbyrði. Sömuleiðis mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa. Ætlunin er að ljúka þessari vinnu á
haustmánuðum 2018 áður en fjárlög ársins 2019 verða afgreidd.

Stjórnvöld ætla einnig að hefja samtal um skattlagningu greiðslna úr sjúkrasjóðum. Kanna á möguleika á því að tryggja skattleysi slíkra greiðslna til launþega vegna heilbrigðisþjónustu að því er segir í yfirlýsingu forsætisráðherra, svo sem sálfræðiþjónustu og tannlækninga, án neikvæðra áhrifa á skattframkvæmd.

Þá verður gerð úttekt á stöðu Fræðslusjóðs og Vinnustaðanámssjóðs með tilliti til skilvirkni og árangurs. Tryggja verði námsúrræði og tækifæri fyrir þá sem litla menntun hafa á vinnumarkaði og tryggja sérstaklega að nám þeirra sem stunda starfs- eða verknám á vinnustað sé í samræmi við skilgreind náms- og færnimarkmið.

Verði þörf á að auknu fjármagni til þess að tryggja þessi markmið ætla stjórnvöld að bregðast við því. Þessari vinnu er ætlað að ljúka í haust áður en fjárlög ársins 2019 verða afgreidd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert