Grunsamlegi maðurinn ljósmyndari DV

mbl.is/Júlíus

Karlmaður sem var að ljósmynda hús í Vesturbæ Reykjavíkur á dögunum og varað var við á facebooksíðu íbúa hverfisins, reyndist vera ljósmyndari DV. Þetta upplýsir Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri DV, á facebooksíðu sinni í dag.

Málið var tilkynnt til lögreglunnar, en maðurinn var sagður hafa ekið burt þegar reynt var að ræða við hann. Voru áhyggjur uppi á meðal íbúanna um að málið tengdist innbrotahrinu á undanförnum vikum og mánuðum.

Lögreglan taldi þó ekki að umræddur einstaklingur tengdist innbrotunum í samtali við mbl.is í gær. Það væri þá eitthvað annað. Kristjón segir að ljósmyndarinn, Sigtryggur Ari Jóhannsson eða Diddi eins og hann sé kallaður, hafi fengið það verkefni að mynda hús knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar.

„Við skemmtum okkur konunglega yfir þessu uppi á DV og lýsti Diddi atburðarásinni reyndar á þann hátt að hann hefði tekið sér góðan tíma í að ná góðum myndum og kom meira að segja aftur á einn staðinn til að vera viss um að hafa rammað húsið almennilega inn.“

Kristjón segir að Sigtryggur hafi alls ekki orðið var við íbúann sem hafi reynt að tala við hann og hann hafi ekið hægt af vettvangi en ekki í neinum flýti eins og haldið hafi verið fram. 

„Sá sem skrifaði um veruleikann eins og hann sá hann varð hálfmiður sín þegar hann frétti að innbrotsþjófurinn ógurlegi var í raun bara hinn geðþekki hirðljósmyndari DV, lækin voru búin að hrannast upp og frásögnin rétt að takast á flug.“

Færslan hefði verið leiðrétt en réttast hefði verið að eyða henni að mati Kristjóns. Hins vegar þurfi hvorki íbúar Vesturbæjar né lögreglan að hafa áhyggjur af Sigtryggi. Hann sé með betri mönnum og hvetur hann fólk til þess að bjóða honum í kaffi næst þegar það sér hann.

„Þessi skilaboð rata vonandi alla leið til óttaslegna fólksins í Vesturbænum!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert