Fullt út úr dyrum á #metoo-fundi

Frá #metoo-fundinum.
Frá #metoo-fundinum. Ljósmynd/Aðsend

Fullt var út úr dyrum og komust færri að en vildu á #metoo-fund sem Landssamband sjálfstæðiskvenna stóð fyrir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Vilhelm Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka, fluttu erindi um að hverju Landsvirkjun og Íslandsbanki eru að vinna að í jafnréttismálum og í kjölfar #metoo byltingarinnar.

Ljósmynd/Aðsend

Þátttakendur sem voru vel á annað hundrað af báðum kynjum tóku þátt í umræðum í smærri hópum og ræddu jafnrétti í sinni víðustu mynd.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók þátt í fundinum og umræðum og í lok fundar þakkaði hann Landssambandi sjálfstæðiskvenna frumkvæðið.

Ljósmynd/Aðsend

Hann sagði ljóst af umræðum og góðri þátttöku að mikill áhugi væri á þessum málum og vilji til að ræða þau meðal flokksmanna. Það væri verk að vinna, þó að ýmislegt hefði áunnist, og þeirri vegferð yrði haldið áfram.

Þá tilkynnti Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefði nýverið skipað í jafnréttisráð flokksins og í #metoo-hóp sem mun vinna áfram að auknu jafnrétti og ábyrgð í flokknum og þessi fundur væri gott innlegg í þá vinnu.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert