Breskir diplómatar á bak við tjöldin

Rannsóknarteymi að störfum þar sem rússnesku feðginin komust í tæri …
Rannsóknarteymi að störfum þar sem rússnesku feðginin komust í tæri við eitur. AFP

„Það kæmi mér ekki á óvart að breskir diplómatar væru að vinna bak við tjöldin og færu þess á leit við aðildarríki NATO að þau sýndu Bretlandi samstöðu og mótmæltu framferði Rússa,“ segir Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, um þann möguleika að ríkisstjórnin sniðgangi HM í Rússlandi í sum­ar.  

Ástæðan fyrir því að rík­is­stjórn Íslands íhug­ar að sniðganga heims­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu er stuðningur við Breta sem saka Rússa um að hafa eitrað fyr­ir rúss­nesk­um gagnnjósn­ara og dótt­ur hans á breskri grund. Bretar munu ekki senda stjórnmálamenn og þjóðhöfðingja á Heimsmeistaramótið í Rússlandi sem hefst í júní.

Bretar vísa 23 rúss­nesk­um stjórn­ar­er­ind­rek­um úr landi vegna málsins. Baldur bendir á að þessar aðgerðir Breta séu ekki dramatískar og í raun hefðbundin diplómatísk viðbrögð.   

„Ef þetta er rétt sem bresk stjórnvöld og virtir rannsóknarmiðlar halda fram að rússnesk stjórnvöld og rússneska mafían noti efnavopn á götum borga Bretlands og standi á bak við jafnvel 14 undarleg dauðsföll Rússa í Bretlandi þá eru viðbrögð breskra stjórnvalda ekki mjög dramatísk,” segir Baldur. Í því ljósi kæmi það honum ekki á óvart að breskir diplómatar væru að vinna í því að fá önnur ríki til að gera slíkt hið sama. 

Guðlaugur Þór greindi frá því í gær að það væri skýrt að leik­menn og aðdá­end­ur verða á sín­um stað. Baldur bendir á að einstaka þingmenn í breska þinginu hafa kallað eftir því að íþróttamenn sniðgangi leikana. „Við eigum hins vegar eftir að sjá hvernig þessu máli vindur fram,“ segir Baldur. 

Sambærileg umræða kom upp hér á landi árið 2008 þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Peking í Kína. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, velti því upp hvort íslenskir ráðamenn ættu að sniðganga Ólympíuleikana til að mótmæla framgöngu Kínverja í garð íbúa Tíbet. Hins vegar kepptu íslenskir íþróttamenn á leikunum og íslenskir stjórnmálamenn mættu.   

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert