Ég man ótrúlega vel eftir þeim

Herdís Egilsdóttir kennari og Svanlaug Jónsdóttir fyrrverandi nemandi hennar og …
Herdís Egilsdóttir kennari og Svanlaug Jónsdóttir fyrrverandi nemandi hennar og söngkona sem er ein þeirra sem skipuleggur viðburðinn. Eggert Jóhannesson

Fyrir ári hitti ég gamlan nemanda minn á ráðstefnu, konu sem er sjálf orðin kennari í dag, og við fórum eitthvað að spjalla. Hún spyr mig hvort ég ætli ekki bara að halda nemendamót, það yrði nú gaman. Þú segir nokkuð, sagði ég, það yrðu nú margir,“ segir Herdís Egilsdóttir, kennari og rithöfundur með meiru.

Herdís ræddi þessa uppástungu gamla nemandans við dóttur sína, Halldóru Björnsdóttur, sem leist strax vel á hugmyndina og sagði við móður sína: „Við bara gerum þetta.“

Því er svo komið að eftir tæpa viku, laugardaginn 7. apríl, mun Herdís Egilsdóttir bjóða öllum sínum fyrrverandi nemendum í kaffi í Skóla Ísaks Jónssonar kl. 14.00.

„Vandinn er að hafa uppi á börnunum, sem eru jú ekki börn lengur, en ég hef bara símanúmer og heimilisföng þeirra frá því ég kenndi þeim,“ segir Herdís en elstu nemendur hennar sem gætu mætt til hennar um helgina eru 74 ára gamlir í dag en aðeins voru 10 ár á milli hennar og fyrsta bekkjarins sem hún kenndi, en þá var hún 18 ára og börnin 8 ára.

Herdís hóf kennslu fyrir 65 árum en 20 ár eru frá því hún lét af störfum sem kennari. Þetta eru því 45 ár af kennslu og ótal margir nemendur.

Hvað gætu þetta verið margir sem kæmu – veistu hvað það eru margir nemendur sem þú hefur kennt?

„Já, ég skal segja þér það, ég vona að þú sitjir vel, en ég var oft með rúmlega 60 börn á dag. Einn bekk fyrir hádegi og annan eftir hádegi og nemendur í hvorum bekk fyrir sig voru stundum allt að 34. Ég fór að telja þetta um daginn og sýnist að það séu komnir vel á annað þúsund nemendur sem ég hef kennt.“

Herdís með fyrrverandi nemendum sínum.
Herdís með fyrrverandi nemendum sínum.


Manstu vel eftir nemendum þínum?

„Ég man ótrúlega vel eftir þeim og þegar ég hitti þau í dag þá spyr ég þau gjarnan hvort þau hafi ekki átt heima þarna og svona og svona og þau verða alveg hissa að ég muni enn hvar þau hafi átt heima. Ég var í Þjóðleikhúsinu einu sinni, var að fá mér kaffi í hléi og sneri baki í næsta borð. Þar sat ungur maður alskeggjaður með stór gleraugu sem ég tók ekkert sérstaklega eftir. Svo allt í einu er bankað létt og kurteislega á öxlina á mér og hann segir: „Afsakið frú, eigið þér eld?“ Þá ætlaði hann að fá sér sígarettu. Ég leit á hann og svaraði: „Nei, Guðmundur minn, ég reyki ekki enn,“ og hann fór bara að gráta, var svo hissa, bara þoldi ekki meira. „Já, það hefur ekkert breyst á þér nefið, það stendur enn út. Alskegg og gleraugu ertu kominn með en nefið er algjörlega það sama og í gamla daga,“ sagði ég. Þetta kemur oft fyrir,“ segir Herdís og allra skemmst er að minnast atviks fyrir nokkrum vikum þegar hún var á gangi heim til sín og bifreið snarstoppaði, tók sveig inn götuna til hennar og út stökk gamall nemandi hennar til að heilsa Herdísi. Endaði fullorðinn maðurinn á að syngja lag á esperantó hástöfum úti á götu fyrir gamla kennarann sinn, sem hann hafði lært hjá henni.

Í Ísaksskóla á laugardaginn næsta hefst dagskrá klukkan 14 með söng og ýmsu og stendur til 15. Eftir það er kaffisamsæti og Herdísi segist vonast til að sjá sem flesta, fólk geti dottið inn og út eins og það vill. Þess má geta að fyrrverandi nemendur sem lesa þetta og hafa áhuga á að mæta geta sent skeyti á nemendurherdisar@gmail.com eða hringt í dóttur Herdísar, Halldóru Björnsdóttur, í síma 772 2408. Einnig er viðburðarsíða á Facebook sem heitir Nemendahittingur - nemendur Herdísar Egilsdóttur.

„Ég vil bjóða nemendur mína innilega velkomna. Mér hefði aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að geta sankað að mér elskulegum vinum mínum sem eru orðnir 74 ára þeir elstu, að fá þá alla næstum því í fangið. Ég hef aldrei verið eins lukkuleg neins staðar eins og með þeim.“

Viðtalið birtist í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert