Aðstoða fyrirtækin við að útvega húsnæði

„Það er skelfilegt þegar svona gerist, ekki hvað síst fyrir fyrirtækin sem þarna voru,“ segir Helgi S. Gunnarson, forstjóri Regins, en fasteignafélagið á meirihluta iðnaðarhúsnæðisins sem eldur kom upp í í Miðhrauni í Garðabæ í morgun.

„Við erum með allt tryggt, en fyrir fyrirtækin sem eru með aðstöðu í húsinu þá er þetta mjög slæmt,“ segir Helgi. Fram kom í tilkynningu sem Reginn sendi til Kauphallarinnar í morgun að bruninn muni ekki hafa áhrif á afkomu fyrirtækisins.

Hann segir húsið hafa verið byggt samkvæmt öllum byggingarreglugerðum og vitað hafi verið frá upphafi að ekki væri vatnsúðarakerfi í því, enda sé slíkt kerfi ekki í öllum húsum.

Helgi segir Regin nú vera að aðstoða fyrirtækin sem voru í húsinu við að útvega sér annað húsnæði. „Við eigum húsnæði í nágrenninu og erum að vinna með fyrirtækjunum í því.“

Stórvirkar vinnuvélar hafa verið notaðar til að rjúfa veggi hússins …
Stórvirkar vinnuvélar hafa verið notaðar til að rjúfa veggi hússins og auðvelda slökkviliði þar með að komast að brunanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í tilkynningu Regins kom fram að eignarhluti fyrirtækisins í húsinu sé 3.390 m2 en húsið í heild er 5.488 m2. Þá sé bókfært virði eignarhluta Regins í húsinu 580 milljónir króna og brunabótamat þess hluta sem Reginn eigi 700 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert