Segja rangt hafa verið leggja til málshöfðun

Geir H. Haarde var dreginn fyrir landsdóm vegna starfa sinna …
Geir H. Haarde var dreginn fyrir landsdóm vegna starfa sinna fyrir hrun. Nú vilja fimmtán þingmenn að hann og þrír aðrir fyrrv. ráðherrar verði beðnir afsökunar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fimmtán þingmenn þriggja flokka leggja nafn sitt við þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi lýsi því yfir að rangt hafi verið að leggja til málshöfðun gegn fjórum ráðherrum þann 28. september 2010 vegna starfa þeirra í ríkisstjórn Íslands fyrir efnahagshrunið árið 2008. Auk þess eigi ráðherrarnir skilið afsökunarbeiðni frá hlutaðeigandi aðilum.

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra var eini ráðherrann sem var á endanum ákærður og færður fyrir landsdóm, en þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrv. utanríkisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson fyrrv. viðskiptaráðherra og Árni Mathiesen fyrrv. fjármálaráðherra voru ekki ákærð.

Alþingismenn greiddu atkvæði um hvort ákæra ætti ráðherrana og var hart tekist á um málið á sínum tíma.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunar, en allir þingmenn flokksins standa að baki henni. Þá eru sex þingmenn Sjálfstæðisflokks í hópi flutningsmanna, auk tveggja þingmanna Flokks fólksins.

Í greinargerð með tillögunni segir að niðurstaða landsdóms sýni að ekki hafi verið tilefni til ákæru. Geir H. Haarde var sýknaður af öllum ákæruliðum nema einum og ekki gerð refsing.

Flutningsmenn segja einnig að ekki hafi verið gætt samræmis við beitingu laga um landsdóm þar sem lögunum hafi ekki verið beitt í öðrum tilvikum er varði stjórnmálalegar ákvarðanir og aðgerðir sem stefnt hafa hagsmunum ríkisins í hættu. Þá hafi atkvæðagreiðsla um málshöfðun borið merki þess að niðurstaða um það hverja skyldi ákæra hefði annaðhvort verið tilviljanakennd eða skipulögð eftir flokkspólitískum línum. Mikilvægt sé að árétta að dómsvaldi megi aldrei beita í pólitískum tilgangi. 

Að auki segir að lýðræðislegu stjórnarfari landsins standi ógn af því ef reynt sé að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda til fangelsisvistar vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis án þess að um hafi verið að ræða ásetning um brot.

„Ýmsar stjórnmálalegar stefnur og ákvarðanir, eða aðgerðaleysi, geta verið skaðlegar hagsmunum ríkisins án þess að ætlunin hafi verið að valda tjóni. Slíkt álitamál ber að leiða til lykta í kosningum en ekki fyrir dómstólum,“ segir í greinargerð með tillögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert