Símtalið kostaði 40 þúsund

Ökumenn ættu að sleppa því að blaðra í símann undir …
Ökumenn ættu að sleppa því að blaðra í símann undir stýri. Nema þeir eigi nóg af pening. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ungur ökumaður, sem var með bráðabirgðaskírteini, var í vikunni stöðvaður fyrir að hafa ekið á 110 km hraða á Reykjanesbraut og að tala í símann undir stýri. Honum er gert að greiða 120 þúsund krónur í sekt fyrir brot sín auk þess sem hans bíður akstursbann.

Viðkomandi hafi áður brotið af sér í umferðinni og var kominn með staðfesta punkta í ökuferilsskrá. „Eftir nýjasta brotið er ljóst að piltsins bíður akstursbann, en það er vonandi að hann læri af reynslunni og bæti ráð sitt í umferðinni,“ segir á vef lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 

Lögreglan fylgist sérstaklega með hraðakstri í umdæminu og farsímanotkun ökumanna í maí en sektir fyrir umferðarlagabrot hækkuðu verulega um síðustu mánaðamót. Þannig hækkaði sektin fyrir notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur úr 5.000 í 40.000. Ungi ökumaðurinn fékk því 40 þúsund krónur í sekt fyrir símtalið og 80 þúsund króna sekt fyrir að aka á 110 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert