Guðni og Eliza í New York

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Hanna

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú héldu til Bandaríkjanna í gær til að vera viðstödd árlega hátíðarsamkomu American-Scandinavian Foundation í New York þar sem forseti Íslands er heiðursgestur.

Jafnframt mun forseti eiga fund með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvum samtakanna og sækja alþjóðlega ráðstefnu um borgarskipulag auk fleiri viðburða, að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Í dag sitja forsetahjón kynningarfund hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um kynjajafnrétti og ræða þar við frú Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóra UN Women, og fleiri forystumenn samtakanna.

Þá sækir forseti viðamikla alþjóðlega ráðstefnu um skipulagsmál og borgir framtíðarinnar sem ber heitið Smart Cities, flytur þar ávarp og situr fyrir svörum.

Þvínæst munu forsetahjónin vera viðstödd opnun sýningar á verkum myndlistarmannsins Steinunnar Þórarinsdóttur á Manhattan og sækja loks sérstaka sýningu á kvikmyndinni Víti í Vestmannaeyjum í Scandinavia House.

Á morgun mun Guðni flytja ávarp á ráðstefnu um framtíð íslenskrar tungu í Scandinavia House og svara fyrirspurnum. Í kjölfarið fylgja pallborðsumræður þeirra Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Önnu Bjarkar Nikulásdóttur, vísindamanns við Háskólann í Reykjavík, undir stjórn Jennifer Sertl. Þá mun Eliza Reid forsetafrú taka þátt í pallborðsumræðum um íslenskar bókmenntir ásamt Adam Gopnik frá tímaritinu New Yorker, Chad F. Post, ritstjóra á tímaritinu Publishers Weekly, og Birnu Önnu Björnsdóttur rithöfundi. Að kvöldi þessa dags býður AmericanScandinavian Foundation til hátíðarkvöldverðar þar sem forseti flytur ávarp.

Á föstudaginn mun forseti eiga fund með António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í höfuðstöðvum samtakanna. Að þeirri heimsókn lokinni mun forseti skoða Norræna nýsköpunarhúsið í New York og heimsækja Icelandic Provisions sem sinnir öflugri markaðssókn íslenska skyrsins á Bandaríkjamarkað en MS er meðal eigenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert