Allir tapa ef íslenskan glatast

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti opnunarerindi á fundi sem Amerísk-íslenska viðskiptaráðið í Bandaríkjunum og aðalræðisskrifstofa Íslands í New York stóð fyrir í dag og fjallar um framtíð íslenskunnar. Fundurinn er haldinn í tilefni 100 ára fullveldis  Íslands.

Í erindi sínu fjallaði Guðni um stöðu íslenskunnar og hvaða ógnum hún stæði frammi fyrir á tækniöld.  Sagðist hann ekki taka undir þá skoðun sem stundum heyrðist að framtíð íslenskunnar væri svört og að fátt geti komið í veg fyrir að hún víki úr vegi fyrir enskunni, eina tungumálinu sem raunverulega geri tilkall til þess að teljast alheimstungumál.

Sagði hann að það væri mjög nauðsynlegt að koma íslenskunni að í flestum gerðum tæknibúnaðar. Máli sínu til stuðnings tók hann farsíma úr vasa sínum og beindi orðum sínum að honum: „Segðu mér Sigríður?“ og benti á að síminn bregst ekki við slíkri fyrirspurn. Öðru máli gegni um þegar orðum er beint að tækjabúnaði og spurt á ensku. Þá sé hægt að fá svör við ýmsum spurningum. Þessu þurfi að breyta og gera fólki kleift að nýta tæknina með íslenskuna á vörum sér í stað ensku.

„Við þurfum að koma íslenskunni inn í farsímana, bílana, ísskápana og brauðristarnar,“ sagði Guðni og hlaut jákvæð viðbrögð fundargesta við þeirri áeggjan.

Fleira þarf að koma til

Hann benti þó á að það væri ekki aðeins undir tækniframförum komið hvernig íslenskunni reiddi af. Það væri einnig undir Íslendingum sjálfum komið sem þyrftu að halda við þeirri hefð að móta ný orð um hlutina, leggja áherslu á að vanda íslenskukennslu og gera hana aðgengilega þeim sem hana vilja læra sem sitt annað tungumál. Þá þurfi Íslendingar að sýna aðfluttu fólki umburðarlyndi og skilning þegar það fetar sig áfram eftir hálum brautum málfræði, orðaforða og framburðar. Á sama tíma eigi Íslendingar að taka tökuorðum vel sem falli vel að íslenskunni, það eigi meðal annars við um orðið að „gúggla“. Þá ættu Íslendingar að halda vöku sinni fyrir áhrifum erlendra tungumála í tengslum við aukinn ferðamannastraum til landsins.

„Við eigum ekki að hræðast það að nota íslensk hugtök þegar kemur að ferðaþjónustunni. Ferðamenn koma til Íslands til þess að upplifa það sem er einstakt. Þess vegna eigum við að nota hugtök á borð við veitingahús, krá og hundslappadrífa, svo dæmi séu tekin.“

En Guðni benti einnig á að það væri ekki aðeins mikilvægt að halda við íslenskunni. Það væri einnig nauðsynlegt að búa íslensk ungmenni undir lífið með öflugri tungumálakennslu. Það styddi við það að halda íslenskunni við sem móðurmáli þeirra.

Undir lok máls síns áréttaði Guðni gagnvart einnig á að ef íslenskan glataðist, þá væri það ekki aðeins missir fyrir Ísland og Íslendinga heldur aðrar þjóðir um leið.

Í kvöld verð Guðni og eiginkona hans, Eliza Reid, heiðursgestir á galakvöldverði sem American Scandinavian Foundation stendur fyrir í hinum fræga Metropolitan klúbbi í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert