„Ég vann orrustuna en Guðmundur stríðið“

Atli Már gekk ánægður úr dómsal.
Atli Már gekk ánægður úr dómsal. mbl.is/​Hari

„Ég er bara mjög ánægður. Ég var alltaf mjög bjartsýnn og ákvað að fara í þennan slag og fékk til liðs við mig Gunnar Inga lögfræðing sem er mjög sjóaður í þessum meiðyrðamálum,“ segir Atli Már Gylfason, fyrrum blaðamaður Stundarinnar, en hann var rétt í þessu sýknaður í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn honum.

„Þetta er vissulega léttir, ég er búinn að bíða eftir þessari niðurstöðu og þessum réttarhöldum í töluverðan tíma. Ég er í raun og veru bara himinlifandi.“

En Atli Már segir að það sem stendur eftir sé það er að Friðrik Kristjánsson sé ennþá týndur. „Hann týndist árið 2013 í Suður-Ameríku og það hefur hvorki tangur né tetur fundist af honum. Ég lagði gríðarlega mikla vinnu í að leita að honum og talaði við fjölda fólks. Niðurstaðan var sú að hann var myrtur þarna úti, en hvar líkamsleifar hans er að finna er vinna sem enn er í gangi.“

Atli Már býst fastlega við því að málinu verði áfrýjað, en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar, var ekki viðstaddur dómsuppsögu. „Ég vona að þessir menn sem hafa staðið í líflátshótunum við mig, bara núna síðast um hvítasunnuhelgina, bæði á föstudag og sjálfan hvítasunnudag, láti af því og slappi aðeins af. Ég held að þeir ættu að vera búnir að komast að því að ég er ekkert að fara að gefast upp.“

RÚV borgar áframhaldandi málarekstur Guðmundar

„Ég vann þessa orrustu en Guðmundur Spartakus vann þetta stríð. Það er alveg á kristaltæru,“ segir Atli Már og vísar í þá ákvörðun RÚV að semja við Guðmund Spartakus í meiðyrðamáli gegn þeim og greiða honum 2,5 milljónir í sakarkostnað og miskabætur. „RÚV er í raun og veru eini fjölmiðillinn á Íslandi sem hefur bolmagn til þess að standa í þessu, ekki þessir litlu miðlar sem þó stóðu fast á sínu, eins og Hringbraut og Stundin. Þessar 2,5 milljónir sem þeir greiddu honum er núna hægt að nota til þess að standa í áframhaldandi áfrýjunum og málarekstri.“

„Vonandi fer þessari uppreisn Spartakusar gegn íslenskum blaðamönnum að ljúka,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Atla Más.

Hvar er Frikki?
Hvar er Frikki? mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert