Lagt til að skima eftir geðsjúkdómum

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Ómar Óskarsson

Skima ætti sérstaklega fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og veita þeim, sem teljast í áhættuhópi, viðeigandi stuðning.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál sem var lögð fram í byrjun mánaðar. Skýrslan tekur til ýmissa atriða, svo sem framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, en upphaflega stóð til að leggja hana fram í febrúar.

Helmingur allra geðraskana kemur fram fyrir 15 ára aldur og því mikilvægt að börn og unglingar fái aðstoð sem fyrst, segir í skýrslunni.

Rúmlega tuttugu tillögur að útbótum koma fram í skýrslunni. Meðal þess sem lagt er til er að settur verði á fót starfshópur sem geri áætlun um innleiðingu „gagnreyndra aðferða“ til að draga úr sjálfsvígum, en líkt og fram kemur í skýrslunni falla um 40 Íslendingar á ári fyrir eigin hendi.

Öll börn í leik- og grunnskólum læri um slökun hugans sem leið til að efla einbeitingu, meta líðandi stund og tileinka sér jákvæðni. Er í því skyni vísað til Núvitundarseturs Íslands, sem nýlega hlaut styrk til að hefja rannsókn á áhrifum núvitundar á kennslu.

Þá er lagt til að geðheilbrigðisþjónusta á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða verði byggð upp. Stefnt var að því árið 2016 að 70% starfsmanna hjúkrunarheimila hefðu fengið fræðslu um umönnum aldraðs fólks með geðraskanir fyrir árslok 2017 en ljóst að markmiðið náðist ekki.

Mannréttindabrot daglegt brauð

Stjórn Geðhjálpar lýsir yfir ánægju sinni með að ráðist hafi verið í gerð skýrslunnar. Í yfirlýsingu frá Geðhjálp segir að skýrslan gefi ágæta mynd af verkefnum sveitarfélaga og stofnana en umfjöllun um félagsleg úrræði sé heldur rýr. Þá þykir stjórn félagsins miður að ekki skuli vera lögð meiri áhersla á starfsemi frjálsra félagasamtaka og hlut notenda í stefnumótun og framkvæmd þjónustunnar.

Í skýrslu ráðherra segir meðal annars að geðheilbrigðisþjónusta sé í boði á heilsugæslustöðvum um allt land, en Geðhjálp segir þá fullyrðingu ekki samræmast ábendingum notenda af landsbyggðinni.

Full ástæða er, að mati Geðhjálpar, til að hafa áhyggjur af mannréttindabrotum í garð fólks með geðrænan vanda en slíkra brota er ekki getið í skýrslunni. „Þvingun af einhvers konar tagi er beitt gagnvart notenda geðheilbrigðisþjónustunnar á hverjum einasta degi á Íslandi,“ segir í yfirlýsingu Geðhjálpar. Þá er bent á að þriðja hvern dag sé einstaklingur með geðrænan vanda fluttur nauðugur á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert