Stálu bílnúmerum fyrrverandi ráðherra

Benedikt vill gjarnan fá bílnúmeraplöturnar aftur.
Benedikt vill gjarnan fá bílnúmeraplöturnar aftur. Ljósmynd/Facebook

Benedikt Jóhannessyni, fyrrverandi fjármálaráðherra, brá heldur betur í brún þegar hann kom að bíl sínum í  hádeginu í dag. Búið var að stela númeraplötunum af bílnum. Benedikt greinir frá stuldinum á Facebook-síðu sinni.

„Maður lendir í ýmsu. Þegar ég ætlaði inn í bílinn minn í hádeginu sá ég að hann var eitthvað skrítinn. Það var búið að stela af honum númeraplötunum. Önnur númer voru skilin eftir,“ segir Benedikt í færslu sinni.

Bílnum hafði Benedikt ekið að heiman frá sér um morguninn og niður í vinnu, þannig að númeraþjófarnir voru ekki smeykir við að athafna sig í dagsbirtunni. Benedikt segir í samtali við mbl.is að hann hafi strax tekið eftir að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. „Þetta var ekki vel gert, númerin pössuðu ekki einu sinni,“ segir hann.

Benedikt hafði í kjölfarið samband við lögreglu og fékk þá þær upplýsingar að plöturnar sem skildar höfðu verið eftir á hans bíl væru af stolnum bíl, sem nú væri væntanlega merktur hans númeraplötum.

„Mér skilst að sá bíll sé hvítur, þannig að ef þið sjáið BZ F19 á hvítum bíl væri gott að vita af því strax. Lögreglan hefur áhuga á málinu og ég á númerunum,“ segir Benedikt í færslu sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert