Spáin að ganga eftir

Í Vestmannaeyjabæ mældist vindur á níunda tímanum í kvöld 12 …
Í Vestmannaeyjabæ mældist vindur á níunda tímanum í kvöld 12 m/s en á Stórhöfða var hann 20,5 m/s.

Stórhöfði sýnir nú meiri vind en spá Veðurstofu Íslands gerði ráð fyrir, vindur er hins vegar ívið minni í Vestmannaeyjabæ. „Þannig að heilt yfir er spáin að ganga eftir,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands.

Í Vestmannaeyjabæ mældist vindur á níunda tímanum í kvöld 12 m/s en á Stórhöfða var hann 20,5 m/s.

Greint var frá því fyrr í dag að vind­ur væri byrjaður að aukast í Vest­manna­eyj­um og fóru nokkur tjöld þá af stað. Voru lög­regla og þjóðhátíðar­nefnd með viðbragðsáætl­un vegna þess og var íþróttahúsið í Eyjum opnað vegna veðurs nú í kvöld, en gul viðvör­un hefur verið í gildi fyr­ir Suður­land í dag.

Daníel segir ekki útilokað að vindhraði muni aukast eitthvað er líður á kvöldið.

„Síðan helst þetta svona í nótt og það dregur ekki úr vindi að ráði fyrr en í fyrramálið,“ segir hann.

Á morgun verði síðan nokkuð erfitt ferðaveður, enda verði strekkingur eða allhvass vindur víða um land, 13-18 m/s og með vindhviðum upp í 30 m/s á sunnanverðu Snæfellsnesi. „Þannig að þó að þetta hafi lítil áhrif í byggð þá getur þetta verið til trafala fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.“ Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á morgun fyrir Suðurland, Faxaflóa, Suðausturland, Austurland að Glettingi og Austfirði.

Þá er útlit fyrir talsverða eða mikla rigningu á norðanverðum Austfjörðum og Austurlandi aðfaranótt þriðjudagsins og á þriðjudag.

„Þessi lægð ætlar að gera sig svolítið heimakomna og það verður smá vesen á henni,“ segir Daníel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert